Norska meistaraliðið Kolstad með íslensku landsliðsmennina Janus Daða Smárason og Sigvalda Björn Guðjónsson innanborðs, unnu stórsigur á Halden, 28:14, á heimavelli í fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum norsku úrvalsdeildarinnar í Þrándheimi í dag.
Um einstefnu var að ræða frá upphafi til enda leiksins. Að loknum fyrri hálfleik var Kolstad með fjögurra marka forskot, 10:6, eftir að leikmenn beggja liða höfðu lítt slitið netmöskva markanna. Reyndar áttu markverðir beggja liða nokkurn hlut að máli.
Sigvaldi Björn skoraði sex mörk og Janus Daði fjögur. Hann átti einnig sex stoðsendingar. Liðin mætast öðru sinni á heimavelli Halden sumardaginn fyrsta. Ósennilegt telst að Halden takist að snúa við taflinu. Liðið hafnaði í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar. Kolstad vann deildina og varð norskur meistari í fyrsta sinn, vann 21 af 22 leikjum deildarinnar.