- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður tilkynnt um ráðningu Snorra Steins í dag?

Snorri Steinn Guðjónsson verður næsti þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Miklar líkur eru á að tilkynnt verði um ráðningu Snorra Steins Guðjónssonar í starf landsliðsþjálfara karla í handknattleik í dag. Samkvæmt heimildum handbolta.is falla flest vötn til þess að Handknattleikssamband Íslands boði til fréttamannafundar þegar á daginn líður og að á fundinum verði ráðning Snorra Stein í starfið staðfest og kynnt.

Einnig verði tilkynnt hver verður hægri hönd Snorra Steins og um landsleiki í nóvember og í janúar fyrir EM 2024 í Þýskalandi. Til stendur að leika tvo landsleiki í nóvember og aðra tvo snemma í janúar.

Arnór verður með

Samkomulag á milli HSÍ og Snorra Steins hefur legið fyrir um nokkurt skeið. Seinlega hefur gengið að hnýta aðra lausa enda málsins, s.s. á ráðningiu aðstoðarþjálfara. Samkvæmt heimildum handbolta.is hefur Snorri Steinn lagt þunga áherslu á að fá sinn gamla samherja hjá landsliðinu, Arnór Atlason, sér við hlið næstu árin. Arnór er að taka við nýju starfi á næstu vikum sem aðalþjálfari Team Tvis Holstebro í Danmörku sem hefur flækt málin nokkuð.

Sagt upp í febrúar

HSÍ tilkynnti 21. febrúar að Guðmundi Þórði Guðmundssyni hafi verið sagt upp störfum. Síðan hafa forráðamenn HSÍ og fleiri þreifað fyrir sér utan lands og innann í leit að eftirmanni Guðmundar Þórðar. Nokkrir þjálfarar hafa verið kallaðir að borðinu. Samkomulag HSÍ og Snorra hefur legið á borðinu óundirritað um nokkurt skeið.

Um leið og Snorri Steinn tekur við þjálfun karlalandsliðsins lætur hann af störfum hjá Val eftir sex ára starf með karlalið félagsins. Snorri endurnýjaði samning sinn við Val til tveggja ára í lok síðasta árs.

Fari svo að ekki verði tilkynnt um ráðninguna í dag kemur vart til þess fyrr að af henni verði fyrr en fimmtudaginn vegna úrslitaleiks ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki í Vestmannaeyjum á morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -