Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik varð nokkuð heppið með andstæðinga þegar dregið var í riðla undankeppni Evrópumótsins 2024 í Zürich í Sviss í dag. Með Íslandi í riðli verða landslið frændþjóðanna, Svíþjóðar og Færeyja auk Lúxemborgar úr fjórða styrkleikaflokki.
Undankeppnin hefst í október með tveimur leikjum, tveir verða í mars og aðrir tveir í apríl á næsta ári.
Tvö efstu lið hvers riðils komast í lokakeppnina sem fram fer í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss í desember 2024. Einnig fara fjögur lið áfram af þeim sem hafna í þriðja sæti. Í fyrsta sinn verða þátttökulið 24 í lokakeppni EM 2024 en þau hafa verið 16 síðustu 20 ár.
Alls var dregið í átta riðla. Fjögur eru í hverjum þeirra nema í áttunda riðli hvar þrjú lið verða saman.
Ísland var í öðrum styrkleikaflokki í fyrsta sinn í 10 ár.
Riðlaskipting er þessi:
1. riðill: | 2. riðill: | 3. riðill: |
Krótatía | Þýskaland | Holland |
Rúmenía | Slóvakía | Tékkland |
Grikkland | Úkraína | Portúgal |
Bosnía | Ísrael | Finnland |
4. riðill: | 5. riðill: | 6. riðill: |
Frakkland | Spánn | Svartfj.land |
Slóvenía | N-Makedónía | Serbía |
Ítalía | Litáen | Tyrkland |
Lettland | Aserbadsjan | Búlgaría |
7. riðill: | 8. riðill: |
Svíþjóð | Danmörk |
Ísland | Pólland |
Færeyjar | Kosóvó |
Lúxemborg |
Handbolti.is fylgdist með í textalýsingu þegar dregið var í dag.