- Auglýsing -
- Franska landsliðið varð fyrir áfalli í gær þegar ljóst varð að Luka Karabatic og Timothey N’Guessan leika ekki meira með liðinu á HM í handknattleik í Egyptalandi. Báðir meiddust í viðureigninni við Ungverja í átta liða úrslitum í fyrrakvöld. Frakkar mæta Svíum í undanúrslitum á HM í dag. Viðureignin hefst klukkan 16.30. Jean-Jacques Acquevillo kemur inn í franska landsliðshópinn fyrir leikinn.
- Pólski landsliðsmaðurinn Maciej Majdzinski og samherji Arnórs Þórs Gunnarssonar hjá þýska liðinu Bergischer HC verður frá keppni um ótiltekinn tíma vegna meiðsl í hné sem hann varð fyrir á HM í Egyptalandi. Bergischer HC greindi frá þessu í gær.
- Kristófer Dagur Sigurðarsson sem gekk í sumar sem leið til liðs við þýska Oberliguliðið TV05 Mülheim sem Hilmar Bjarnason þjálfar, er kominn heim enda hefur ekkert verið leikið í deildinni svo mánuðum skiptir. Kristófer Dagur hefur gengið til liðs við Fram og var á skýrslu í gærkvöld þegar Fram skellti Val í Olísdeildinni.
- Lars Rasmussen, fyrrverandi landsliðsmaður Dana í handknattleik sagði í gær í samtali við danska fjölmiðla hafa nánast endurupplifað viðureign Danmerkur og Íslands í átta liða úrslitum á HM 2007 þegar hann horfði á viðureign Danmerkur og Egyptalands í átta liða úrslitum á HM í fyrradag. Rasmussen tók þátt í leiknum 2007 þegar Danir unnu Íslendinga, 42:41, í tvíframlengdum leik í Hamborg. Í fyrradag var Rasmussen heima í stofu fyrir framan sjónvarpið.
- Hrvoje Horvat hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Króata í handknattleik karla, alltént fram yfir forkeppni Ólympíuleikanna í mars. Horvat er þjálfari U20 ára landsliðs Króata auk þess sem hann var hægri hönd Lino Cervar á HM, en Cervar sagði starfi sínu lausu á dögunum eftir vonbrigði Króata á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Egyptalandi. Horvat þjálfar einnig RK Nexe Nasice í heimalandi sínu en það er í öðru sæti í króatísku úrvalsdeildinni auk þess að standa í ströngu í Evrópudeildinni.
- Auglýsing -