Þriðja umferð undanúrslita úrslitakeppni Olísdeildar kvenna fer fram í kvöld. Stjarnan sækir Val heim í Origohöllina klukkan 18 og klukkan 19.40 verður flautað til leiks í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Þar mætast deildarmeistarar ÍBV og Haukar.
Staðan í báðum rimmum er jöfn, 1:1, í vinningum talið. Tveir af fjórum leikjum undanúrslitanna sem að baki eru hafa verið framlengdir. Stjarnan vann Val eftir framlengingu í fyrsta leik liðanna. Valur vann með eins marks mun í TM-höllinni í fyrradag, 25:24.
Haukum tókst að sigra í annarri viðureigninni við ÍBV, 25:24, eftir 70 mínútna leik á mánudaginn og svara fyrir sjö marka tap í Vestmannaeyjum á laugardaginn, 29:22.
Vinnur ÍR aftur á Selfossi?
Þriðja viðureign kvöldsins hefst í Sethöllinni á Selfossi klukkan 19.30 þegar ÍR-ingar hefja leik við heimaliðið, Selfoss, í umspili Olísdeildar kvenna. Í einvígi Selfoss og ÍR er staðan sú að ÍR-ingar hafa tvo vinninga en Selfoss engan. ÍR vann fyrsta leikinn á Selfoss fyrir viku, 27:21, og hafði öðru sinni betur, 29:28, í framlengdum háspennuleik í Skógarseli á laugardaginn.
Leikmenn Selfoss er svo sannarlega með bakið upp við vegg. Tap í kvöld þýðir fall í Grill 66-deildina. Ef Selfoss vinnur á heimavelli í kvöld verður fjórða viðureign liðanna í Skógarseli í Breiðholti á laugardaginn.
Leikir kvöldsins
Olísdeild kvenna, undanúrslit, 3. umferð:
Origohöllin: Valur – Stjarnan (1:1), kl 18 – sýndur á Stöð2sport.
Vestmannaeyjar: ÍBV – Haukar (1:1), kl. 19.40 – sýndur á Stöð2sport.
Umspil Olísdeildar kvenna, úrslit, 3. umferð:
Sethöllin: Selfoss – ÍR (0:2), kl. 19.30 – sýndur á Selfosstv.
Textalýsing verður á handbolti.is.