KA/Þór tyllti sér á topp Olísdeildar kvenna í handknattleik með fjögurra marka öruggum sigri á bikarmeisturum Fram, 27:23, í KA-heimilinu í dag. KA/Þórs-liðið var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi og segja má að Fram-liðið hafi verið skrefi á eftir og mátt bíta í það súra epli að eiga við ofurefli að etja og tapa þar með öðrum leik sínum á leiktíðinni.
KA/Þór komst í 10 stig eftir sjö leiki með þessum sigri. Valur er stigi á eftir og á leik til góða við HK í kvöld. Fram er með átta stig eftir sex leiki eins og Stjarnan.
Það var rétt á upphafsmínútunum sem Fram-liðið náði að halda í við spræka leikmenn KA/Þórs. Eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið þá jókst forysta KA/Þórs og í hálfleik var fimm marka munur, 14:9. Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik munaði sjö mörkum, 20:13. Mestur varð munurinn átta mörk. Fram tókst að saxa aðeins á forskot heimaliðsins undir lokin en lánaðist aldrei að ógna sigri KA/Þórs.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 7/4 (átti einnig sjö stoðsendingar), Sólveig Lára Kristjánsdóttir 5, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Ásdís Guðmundsdóttir 4/1, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 5 skot, 27,8% – Matea Lonac 0.
Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 9/3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 2, Harpa María Friðgeirsdóttir 2, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 2, Karen Knútsdóttir 2, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 1, Guðrún Erla Bjarnadóttir 1, Jónína Hlín Hansdóttir 1.
Varin skot: Katrín Ósk Magnúsdóttir 4 skot, 23,5% – Sara Sif Helgadóttir 2 skot 17,6%.