Leikmenn Selfossliðsins sýndu drengsskap í gær í fjórðu viðureign liðsins við ÍR í umspili Olísdeildar kvenna. Þegar leikur hófst á ný eftir að Sólveig Lára Kjærnested leikmaður og þjálfari ÍR hafði fengið aðhlynningu vegna meiðsla átti Selfossliðið strangt til tekið boltann. Leikmaður Selfoss tóku það hinsvegar til bragðs að senda knöttinn til ÍR-inga svo þeir gætu hafið nýja sókn.
Þegar Sólveig meiddist var hún viðbúin að taka við sendingu frá samherja. Rétt í þann mund sem boltinn barst til Sólveigar var engu líkara en öðrum fætinum væri kippt undan henni og fór boltinn þar af leiðandi út fyrir hliðarlínu. Grunur leikur á að hásin hafi slitnað.
Eftir að búið var að hlúa að Sólveigu Láru og bera hana af leikvelli hélt leikurinn áfram með innkasti þar sem Arna Kristín Einarsdóttir leikmaður Selfoss sendi boltann rakleitt til Laufeyjar Láru Höskuldsdóttur, leikmanns ÍR sem hélt sókninni áfram. Það má sjá á myndskeiðinu hér fyrir neðan.