Handknattleikskonan Berta Rut Harðardóttir hefur samið við sænska handknattleiksliðið Kristianstad HK um að leika með því á næsta keppnistímabili. Berta Rut lék á nýliðinni leiktíð með Holstebro Handbold í næst efstu deild í Danmörku. Liðið hafnaði í þriðja sæti og leikur áfram í deildinni.
Kristianstad HK hafnaði í næst neðsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í vor en tókst að halda sæti sínu eftir að hafa unnið Boden, 3:2 vinningum, eftir æsispennandi umspilsleiki.
Áður en Berta Rut gekk til liðs við Holstebro Handbold fyrir ári lék hún með Haukum hér heima en sín fyrstu skref á handboltavellinum steig Berta Rut á Jótlandi þar sem fjölskylda hennar bjó þegar hún var unglingur.
Berta Rut fetar í fótspor landsliðskonunnar Andreu Jacobsen sem lék með Kristianstad HK í fjögur ár, frá 2018 til 2022.