Fyrsti úrslitaleikur Vals og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í Vestmannaeyjum í kvöld var aldrei sá spennuleikur sem vonir einhverra stóðu til. Fyrir utan fimm fyrstu mínúturnar voru yfirburðir Valskvenna miklir. Þær unnu mjög öruggan sigur, 30:23, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 14:9.
Næsti leikur verður á heimavelli Vals, Origohöllinni, á þriðjudagskvöld. Upphaflega var leikurinn skráður á mánudaginn en hefur verið seinkað skyndilega um sólarhring.
ÍBV skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörkum leiksins. Valur svarði með fjórum mörkum og tók eftir það leikinn yfir. Varnarleikurinn var frábær og Sara Sif Helgadóttir framúrskarandi þar fyrir aftan. Sóknarleikur Vals var öflugur.
Leikmenn ÍBV virtust miður sín. Lykilmenn náðu sér engan veginn á strik. Varnarleikurinn gekk illa og þar af leiðandi var Marta Wawrzykowska lítt öfundsverð af hlutverki sínu.
Í síðari hálfleik reyndi ÍBV að hefja áhlaup en þau skiluðu ekki tilætluðum árangri. Ekkert raskaði ró Valsliðsins. Munurinn var minnstur fjögur mörk snemma í hálfleiknum.
ÍBV getur gert betur á öllum sviðum leiksins. Ekki er útilokað að þreyta sé farin að segja til sín. Skammt er síðan einvíginu við Hauka sem fór í fimm leiki, þar af þrjá framlengda, lauk. Þar á ofan var þétt leikið.
Valsliðið lék afar vel. Eins og í undanförnum leikjum þá nýtti Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari vel breiddina í leikmannahópnum sem skilar sér vel. Tólf af sextán leikmönnum tóku þátt í leiknum og allar skiluðu þær einhverju framlagi til leiks.
Thea Imani Sturludóttir lék ekki með Val. Hún meiddist á æfingu í gær. Eins var Auður Ester Gestsdóttir fjarverandi eins og í undanförnum þremur leikjum.
Mörk ÍBV: Ásta Björt Júlíusdóttir 6, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 5/1, Elísa Elíasdóttir 4, Harpa Valey Gylfadóttir 2, Karolina Olszowa 2, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 2.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 10, 25%.
Mörk Vals: Sigríður Hauksdóttir 5, Mariam Eradze 5, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/1, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Sara Dögg Hjaltadóttir 3, Morgan Marie Þorkelsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 13, 36,1%.
Handbolti.is fylgist í með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.