Eftir tap fyrir TuS Metzingen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld, 33:26, er ekkert sem heitir nema sigur hjá Díönu Dögg Magnúsdóttur og samherjum í BSV Sachsen Zwickau um næstu helgi þegar lið Neckarsulm verður sótt heim. Um hreinan úrslitaleik verður að ræða á milli liðanna um að forðast næst neðsta sæti deildarinnar og komast hjá umspili við lið úr 2. deild um keppnisrétt í 1. deild á næstu leiktíð.
Aðeins eins stigs munur
Aðeins er eins stigs munur á Neckarsulm og BSV Sachsen Zwickau, síðarnefnda liðinu í hag, þegar tvær umferðir eru eftir. Illa hefur gengið hjá BSV Sachsen Zwickau síðustu vikur og fá stig safnast. Fyrir vikið er liðið komið í fremur hættulega stöðu.
Sandra Erlingsdóttir og félagar hennar í TuS Metzingen voru talsvert sterkari í leiknum við Díönu Dögg og samherja í BSV Sachsen Zwickau í Öschhalle í Metzingen, ekki síst í fyrri hálfleik.
Díana Dögg markahæst
Díana Dögg var markahæst hjá BSV Sachsen Zwickau í leiknum í kvöld. Hún skoraði sex mörk, átti átta stoðsendingar, skapaði eitt færi, vann þrjú vítaköst, vann andstæðinga þrisvar sinnum var að leikvelli og hirti eitt frákast.
Sandra hafði hægt um sig og hvorki skoraði né átti línusendingu.
TuS Metzingen er í góðum málum í sjötta sæti með 28 stig þegar tvær umferðir eru eftir.
SG BBM Bietigheim er efst með 46 stig og á þrjá leiki eftir óleikna og getur þess vegna tapað öllum leikjunum án þess að eiga á hættu að meistaratitillinn gangi liðinu úr greipum á lokasprettinum.