- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Guðmundur og Fredericia leika til undanúrslita

Guðmundur Þórður Guðmundsson verður með Fredericia í eldlínu Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Liðsmenn Fredericia Håndboldklub, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, gulltryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum um danska meistaratitilinn í handknattleik karla þegar þeir unnu Skanderborg Aarhus, 26:24, á útivelli í síðustu umferð riðlakeppni átta liða úrslita. Fredericia Håndboldklub hafnaði í öðru sæti í riðli tvö, aðeins stigi á eftir GOG sem hóf keppnina með tvö stig í forgjöf.

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki fyrir Fredericia Håndboldklub í dag en stóð sig örugglega mjög vel í vörninni.

Mætir Aalborg

Fredericia Håndboldklub mætir Aalborg Håndbold í undanúrslitum á sunnudaginn. Aalborg varð efst í riðli eitt með öruggum sigri á Skjern á heimavelli í dag, 35:27. Aron Pálmarsson átti mjög góðan leik fyrir Aalborg Håndbold, skoraði fimm mörk og átti þrjár stoðsendingar. Aron var valinn maður leiksins. Arnór Atlason var að vanda Stefan Madsen þjálfara Aalborg til halds og trausts í leiknum.

Skjern var í öðru sæti í fyrsta riðli og mætir GOG í undanúrslitum. GOG vann Bjerringbro/Silkeborg, 30:27, á heimavelli. Það er vafalítið vonbrigði fyrir Bjerringbro/Silkeborg að ná ekki í undanúrslit en liðið varð í þriðja sæti í riðli tvö, fjórum stigum á eftir Fredericia Håndboldklub

Elvar með afbragðsleik

Ribe-Esbjerg og Kolding skildu jöfn, 31:31, í Kolding í riðli eitt. Bæði lið voru úr myndinni í kapphlaupinu um sæti í undanúrslitum þegar kom að leiknum í kvöld. Elvar Ásgeirsson átti hreint afbragðsgóðan leik með Ribe-Esbjerg. Hann skoraði sjö mörk og átti einnig tvær stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson stóð í marki Ribe-Esbjerg frá upphafi til enda leiksins og varði sjö skot, 19%. Arnar Birkir Hálfdánsson átti eitt markskot sem rataði ekki rétta leið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -