- Auglýsing -
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten Schaffhausen standa vel að vígi í undanúrslitum um meistaratitilinn í handknattleik karla í Sviss eftir að hafa unnið Pfadi Winterthur öðru sinni í gær, 37:34. Framlengingu þurfti til þess að knýja fram úrslit í leiknum sem fram fór í Winterthur. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 9 mörk, þar af fimm úr vítaköstum.
- Kadetten hefur þar með tvo vinninga en Pfadi Winerthur engan. Þriðja viðureign liðanna verður í Schaffhausen á fimmtudaginn. Í hinni rimmu undanúrslitanna er HC Kriens með tvo vinninga en BSV Bern engan. Flest bendir til þess að tvö efstu lið deildarkeppninnar, HC Kriens og Kadetten Schaffhausen, mætist í úrslitum um meistaratitilinn í Sviss.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði þrjú mörk, átti tvær stoðsendingar og var einu sinni vikið af leikvelli í stórsigri Coburg á Nordhorn, 31:24, á útivelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gær. Coburg er í 10. sæti deildarinnar með 33 stig eftir 33 leiki. Fimm umferðir eru óleiknar.
- Íslendingaliðið Volda krækti í oddaleik gegn Oppsal í uppgjöri liðanna í umspili norsku úrvalsdeildarinnar í gær með 33:30 sigri Oppsal Arena. Hvort liðið hefur unnið eina viðureign. Dana Björg Guðmundsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Volda og Katrín Tinna Jensdóttir eitt. Rakel Sara Elvarsdóttir var ekki í leikmannhópi Volda. Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari liðsins og Hilmar Guðlaugsson er honum til aðstoðar. Báðir láta af störfum hjá Volda í lok keppnistímabilsins.
- Spænski landsliðsmaðurinn Rubén Marchán gengur til liðs við PSG í sumar eftir tveggja ára veru hjá Nantes. Marchán á að fylla skarð Danans Hendrik Toft Hansen sem flytur heim í sumar og gengur til liðs við Mors-Thy.
- Sænski landsliðsmaðurinn Alfred Jönsson er sagður vera á leiðinni til MT Melsungen í Þýskalandi eftir veru hjá danska úrvalsdeildarliðinu Skjern. Jönsson þekkir vel til í Þýskalandi eftir að hafa leikið með Hannover-Burgdorf fyrir komuna til Skjern.
- Auglýsing -