Eftir þrjú ár sem aðstoðarþjálfari úkraínska meistaraliðsins HC Motor Zaporízjzja hættir Roland Eradze og kemur heim til Íslands í sumar þar sem fjölskylda hans býr. Verkefninu er lokið, sagði Roland við handbolta.is en liðið hefur leikið sem gestalið í þýsku 2. deildinni í vetur vegna innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar á síðasta ári. Einnig tók HC Motor þátt í Evrópudeildinni í vetur.
„Þetta hafa verið sigursæl ár með þremur meistaratitlum og þremur bikarmeistaratitlum auk þess sem við komumst í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar og vorum á meðal sextán bestu í Evrópudeildinni í vetur með mjög ungt lið,” sagði Roland sem hefur í hyggju að halda áfram við þjálfun hér á Íslandi.
Gintaras rær einnig á ný mið
Um leið og Roland hættir hjá HC Motor hverfur aðalþjálfarinn og Íslandsvinurinn Gintaras Savukynas einnig frá félaginu. Hann tók við þjálfun sumarið 2020 og fékk Roland með sér í verkefnið sem aðstoðarþjálfari og markvarðaþjálfari.
Gintaras lék hér á Íslandi um árabil með Aftureldingu, Gróttu og var þjálfari ÍBV frá 2006 til 2008. Gintaras var ein kjölfestan í sterku liði Aftureldingar undir lok síðustu aldar og var m.a. valinn íþróttamaður Aftureldingar árið 2000.
Gintaras er þjálfari karlalandsliðs Litháen.