Keppnistímabil handknattleiksfólks hér á landi hefst í dag þegar leikið verður í Meistarakeppni Handknattleikssambands Íslands. Í Meistarakeppninni mætast alla jafna Íslands- og bikarmeistarar síðustu leiktíðar.
Að þessu sinni mætast í kvennaflokki Fram, sem varð deildar,- og bikarmeistari síðasta tímabils og KA/Þór sem hlaut silfurverðlaun í bikarkeppnni í byrjun mars. Leikurinn fer fram í íþróttahúsi Fram og hefst klukkan 16 og má segja að Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson, sem dæma leikinn, flauti keppnistímabilið af stað í Safamýri.
Í karlaflokki leiða Valsmenn, deildarmeistarar í vor sem leið, og bikarmeistarar ÍBV, saman hesta sína í Origo-höllinni á Hlíðarenda, heimavelli Vals. Leikurinn hefst klukkan 18.30. Hinir þrautreyndu alþjóða dómarar, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, dæma viðureignina.
Mjög takmarkaður fjöldi áhorfenda verður leyfður á leikjunum en báðar viðureignir verða sýndar í beinni útsendingu á Stöð2 Sport. Þess vegna er engin ástæða fyrir áhugafólk að örvænta þótt það komist ekki á völlinn að þessu sinni.