- Auglýsing -
- Sænski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Palicka meiddist í undanúrslitaleik Svía og Frakka á HM. Hann tók engu að síður þátt í úrslitaleiknum við Dani á sunnudaginn. Palicka reiknar með að vera ekki með Rhein-Neckar Löwen í fyrstu leikjum liðsins í þýsku 1. deildinni sem hefst um næstu helgi.
- Danski landsliðsmaðurinn Lasse Svan leikur ekki með Flensburg næstu tvær til þrjár vikur vegna meiðsla í kálfa sem hann varð fyrir snemma í úrslitaleik Dana og Svía á sunnudaginn.
- Magakveisan sem herjaði á Mikkel Hansen gerði að verkum að hann fór fimm kílóum léttari frá Egyptalandi í gær en þegar hann kom til landsins 11. janúar. Hansen greindi frá þyngdartapinu í dönskum fjölmiðlum í gær.
- Landsliðsþjálfari heimsmeistaranna, Nikolaj Jacobsen, var svo illa haldinn af magakveisunni að hann segist ekki hafa sett annað ofan í sig síðustu fjóra sólarhringanna fyrir úrslitaleikinn en gosdrykki ásamt töflum sem áttu að draga úr kveisunni.
- Johannes Golla, línumaður Flensburg og þýska landsliðsins í handknattleik, hefur greinst með kórónuveiruna. Óvíst er hvort hann smitaðist meðan þýska landsliðið var í Egyptalandi á HM eða eftir komuna til Þýskalands. Þýska landsiðið kom heim á þriðjudaginn fyrir viku og smitið greindist hjá Golla á föstudaginn.
- Slóvenski hornamaðurinn, Blaz Janc, leikur ekki með Barcelona á næstunni. Hann kennir eymsla í vinstri hásin eftir þátttöku í HM í Egyptalandi með landsliði Slóvena.
- Auglýsing -