Ragnar Hermannsson hefur verið ráðinn styrktar, – úthalds og tækniþjálfari handknattleiksdeildar Stjörnunnar.
Í tilkynningu frá handknattleiksdeild Stjörnunnar í dag segir m.a. „Ragnar þekkir vel til Stjörnunnar því í nokkur ár vann hann með Aðalsteini Eyjólfssyni og Skúla Gunnsteinssyni sem aðstoðarþjálfari í mfl kvenna.
Við í Stjörnunni erum mjög ánægð að fá Ragnar með okkur í lið þar sem hann mun hafa yfirumsjón með styrktar – og úthaldsþjálfun leikmanna meistaraflokka handboltans.
Einnig mun Ragnar koma að einstaklingsþjálfun í meistaraflokk karla og kvenna t.d. skotæfingar, tækniæfingar þar sem unnið er markvisst að því að bæta getu viðkomandi leikmanns.“
Ragnar, sem er sjúkraþjálfari, hefur lengi verið í þjálfun og var síðast þjálfari kvennaliðs Hauka frá upphafi nýliðins tímabils og fram í mars. Hann hefur þjálfað með hléum frá 1979. Tvö ár með meistaraflokk karla hjá Fjölni í næst efstu deild, önnur tvö ár með Val, þrjú ár með Hauka og eitt ár með KR og Fylki í meistaraflokki kvenna í efstu deild sem aðalþjálfari. Einnig á Ragnar mörg ár að baki í þjálfun yngri flokka hjá KR, Fylki, Stjörnunni og Gróttu.