Handboltaveisla verður í Vestmannaeyjum í dag þegar þar fara fram tvær viðureignir í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik kvenna og karla.
ÍBV og Haukar hefja leik í úrslitum Olísdeild karla klukkan 13. Haukar luku undanúrslitarimmu sinni við Aftureldingu í undanúrslitum á þriðjudaginn. Leikmenn ÍBV hafa safnað kröftum og lagt á ráðin undanfarna tíu daga eftir að hafa afgreitt FH-inga í þremur leikjum í undanúrslitum.
Ekki er hægt að útiloka að Íslandsbikarinn fari á loft í Vestmannaeyjum síðdegis í dag eftir þriðja leik ÍBV og Vals í úrslitum í kvennaflokki. Valur er í kjörstöðu eftir tvo örugga sigra að undanförnu. Deildarmeistarar ÍBV eru án vinnings.
Vinni Valur í dag taka leikmenn liðsins við Íslandsbikarnum í leikslok og sigla með hann heim með Herjólfi sem leggur af stað klukkan 18. Ef ÍBV vinnur mætast liðin á ný á þriðjudagskvöld í Origohöllinni.
Leikir dagsins
Olísdeild karla, úrslit, leikur eitt:
Vestmannaeyjar: ÍBV – Haukar, kl. 13 – sýndur á Stöð2sport.
Olísdeild kvenna, úrslit, leikur þrjú:
Vestamannaeyjar: ÍBV – Valur (0:2), kl. 15.30 – sýndur á Stöð2sport.