Forráðamenn ÍBV brugðu til þess ráðs að fá lánaða stúku í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn til þess að koma fleiri áhorfendum fyrir með góðu móti í keppnissal íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum í kvöld þegar ÍBV tekur á móti Haukum í þriðja leik liðanna í úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik. Vilmar Þór Bjarnason framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar segir frá þessu framtaki í samtali við Eyjafréttir í dag.
Vonir standa til þess að hægt verði að koma fyrir 240 áhorfendum til viðbótar með góðu móti með stúkunni úr Þorlákshöfn.
Aldrei meiri áhugi
Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri áhugi fyrir nokkrum handboltaleik í Vestmannaeyjum og búa heimamenn sig undir upphitun fyrir þjóðhátíð síðar í sumar.
Vilmar Þór segir að aðgöngumiðar renni út eins og heitar lummur með hunangi. Hann verði illa svikinn ef ekki verður uppselt. „Við höfum ekki séð svona áhuga áður,“ er haft eftir Vilmari Þór í Eyjafréttum.
Í fyrsta sinn heima
Ef ÍBV vinnur leikinn verður lið félagsins Íslandsmeistari í þriðja sinn í karlaflokki og tekur þar með við Íslandsbikarnum á heimavelli. Það hefur ekki áður gerst í sögu karlaliðs ÍBV.
Leikurinn hefst klukkan 19.15. Opnað verður fyrir áhorfendum inn í keppnissalinn klukkan 18.30. Upphitun með leik, söng og veitingasölu hefst klukkan 17 fyrir utan íþróttamiðstöðina. Biður Vilmar Þór áhorfendur um að vera fyrr en síðar á ferðinni.