- Auglýsing -
Mikil eftirvænting ríkir fyrir úrslitaleik ÍBV og Hauka sem hefst í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum klukkan 19 í kvöld. Stuðningsmenn beggja liða ætla að fjölmenna og troðfylla íþróttasalinn. Í fyrsta sinn í sex ár ráðast úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn í oddaleik.
Handbolti.is hefur skrapað saman nokkrum staðreyndum til upphitunar fyrir leikinn sem sannarlega stendur undir því að kallast stórleikur.
- Annað árið í röð verða Íslandsmeistarar í handknattleik karla krýndir á fjölum íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Á góðviðris laugardegi, 28. maí fyrir ári, tóku Valsmenn við Íslandsbikarnum eftir sigur á ÍBV í fjögurra leikja einvígi.
Síðasta leiknum lauk með eins marks sigri, 31:30. - Íslandsbikarinn fer á loft í annað sinn á stuttum tíma í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Kvennalið Vals tók við Íslandsbikarnum í Eyjum á dögunum eftir þriðja sigurinn á ÍBV í rimmu liðanna.
- ÍBV hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari í handknattleik karla, síðast 2018, 3:1, eftir leiki við FH. Fjórum árum áður, 2014, vann ÍBV Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í karlaflokki í fimm leikja einvígi við Hauka.
- Haukar hafa ellefu sinnum unnið Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla, síðast 2016 eftir 3:0 sigur á Aftureldingu.
- Eftir fjóra leiki liðanna í úrslitum til þessa hafa liðin skorað 114 mörk hvort. Markatalan er semsagt jöfn þótt munurinn hafi verið frá þremur og upp í sex mörk þegar upp hefur verið staðið í hverri viðureign.
- Rimma ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla, sem leidd verður til lykta í kvöld, er sú sjöunda frá árinu 2000 sem lýkur með oddaleik. Aðeins einu sinni á þessum tíma hefur lið sem tapað hefur tveimur fyrstu leikjunum orðið meistari. Það átti sér stað 2002 þegar KA, undir stjórn Atla Hilmarssonar, vann þrjá síðustu leikina gegn Val og tók við Íslandsbikarnum í Valsheimilinu, 24:21.
- Árið 2001 unnu Haukar lið KA, 3:2, og fögnuðu sínum fyrsta Íslandsmeistaratitili í handknattleik karla í þá nýju og glæsilegu íþróttahúsi á Ásvöllum sem þótti við hæfi eftir að Haukar kvöddu íþróttahúsið við Strandgötu árið áður með því fagna fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í karlaflokki í 59 ár.
- Árið 2010 unnu Haukar Val, 3:2, í rimmu um Íslandsmeistaratitilinn.
- ÍBV vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlaflokki 2014 í 3:2 einvígi gegn Haukum sem lauk á Ásvöllum með sigurmarki Agnars Smára Jónssonar, 29:28, í fimmta leik.
- Fimm leikmenn liðanna sem taka þátt í leiknum í kvöld voru einnig með liðunum í einvíginu eftirminnilega 2014. Þetta eru Dagur Arnarsson og Theodór Sigurbjörnsson leikmenn ÍBV og Adam Haukur Baumruk, Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Tjörvi Þorgeirsson leikmenn Hauka.
- Eitt hefur ekki breyst hjá liðum ÍBV og Hauka frá 2014. Sömu liðsstjórar standa vaktina. Halldór Sævar Grímsson hjá ÍBV og Hörður Davíð Harðarson hjá Haukum.
- Næsta fimm leikja einvígi var 2016 þegar Haukar unnu Aftureldingu, 3:2. Allir leikirnir unnust á útivelli. Afturelding átti heimaleikjaréttinn.
- Síðast fór úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn í fimm leiki árið 2017 þegar Valur vann FH og tók við Íslandsbikarnum í Kaplakrika. Valur hafnaði í sjöunda sæti í Olísdeildinni um vorið. FH var á hinn bóginn deildarmeistari um vorið.
- Áður en einvígi ÍBV og Hauka hófst laugardaginn 20. maí fór handbolti.is á hundavaði yfir úrslitarimmurnar frá árinu 2000.
- Auglýsing -