Í dag hefst í Nuuk á Grænlandi síðasta undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik. Landslið fimm þjóða Norður Ameríku og Karabíahafs keppa um einn farseðil á HM. Auk Grænlendinga taka landslið Bandaríkjanna, Kanada, Kúbu og Mexíkó þátt.
Keppninni lýkur á sunnudaginn, 11. júní og þá liggur fyrir hvaða 30 landslið hafa öðlast sæti á mótinu. Alls taka 32 landslið þátt í HM. Aðeins stendur þá eftir spurningin um hverjir hreppa tvo síðustu farseðlana sem stjórn Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, hefur í sinni vörslu.
Ísland sækist eftir sæti á HM
Handknattleikssamband Íslands hefur augastað á þátttökurétti á HM. Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ sagði við handbolta.is á dögunum að sambandið ynni að því að hreppa annan farseðilinn.
Ekki er ljóst hvenær stjórn IHF tilkynnir ákvörðun sína hvert boðsmiðarnir tveir fara en fullvíst er að niðurstaða liggur í síðasta lagi fyrir hinn 6. júlí þegar dregið verður í riðla heimsmeistaramótsins.
Lokakeppni heimsmeistaramótsins fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 29. nóvember til 17. desember.
Einu sinni með
Íslenska landsliðið hefur aðeins einu sinni tekið þátt í HM. Það var árið 2011 þegar mótið fór fram í Brasilíu.
Landslið Púertó Ríkó sem vann keppni Norður Ameríku og Karabíahafsríkja fyrir tveimur árum tekur ekki þátt að þessu sinni. Talið er að Kúba sé með öflugasta liðið af þeim fimm sem reyna með sér í Nuuk. Landslið Kúbu stóð uppi sem sigurvegari 2015 og 2019.