Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í handknattleik kvenna hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við félagið um þjálfun meistaraflokks kvenna sem gildir út tímabilið 2027. Starfi Ágúst Þór út samningstímann verður hann búinn að vera við stjórnvölin hjá Valsliðinu í áratug.
Ágúst Þór stýrði Val til sigurs í úrslitakeppninni í vor og varð Valur þar með Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fjögur ár í kvennaflokki eftir að hafa orðið að gera sér að góðu annað sætið tvö ár í röð á undan. Þetta var annar Íslandsmeistaratitill Vals í kvennaflokki undir stjórn Ágústs Þórs. Valur vann þrefalt árið 2019 en varð einnig deildarmeistari 2017 og bikarmeistari 2022. Alls hefur Valur leikið fimm ár í röð um Íslandsmeistaratitilinn.
Ekki einhamur
Ágúst Þór er maður ekki einhamur þegar kemur að þjálfun. Samhliða störfum sínum hjá Val hefur hann verið í þjálfarateymum A-landsliða kvenna og karla auk þess að þjálfa yngri landslið kvenna, nú U19 ára landsliðið með afbragðs árangri.
„Valur er eitt af stærstu liðum landsins og ég er ánægður með að vera búinn að framlengja samninginn minn hér til lengri tíma. Við erum með frábæran hóp af leikmönnum sem er spennandi að vinna með ásamt því að það er mikill efniviður á leiðinni upp í yngri flokkum félagsins á næstu árum sem munu koma inn í hópinn hjá okkur,“ er haft eftir Ágústi Þór í tilkynningu frá Val.
Ágúst Þór heldur upp á daginn í Færeyjum þar sem U19 ára landslið kvenna leikur tvo æfingaleiki um helgina, þann síðari í dag.