Eftir góðan sigur á færeyska landsliðinu í gær þá tapaði U19 ára landslið kvenna síðari viðureigninni við stöllur sínar í Vestmanna í Færeyjum í kvöld. Lokatölur, 31:25, fyrir Færeyinga sem voru fjórum mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 15:11.
Íslensku stúlkurnar náðu sér aldrei á strik í leiknum í kvöld. Þó var leikur þeirra betri í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Um skeið í síðari hálfleik var forskot Færeyinga komið niður í tvö mörk. Nær komst íslenska liðið ekki.
Framundan er áframhaldandi undirbúningur hjá íslenska liðinu fyrir þátttöku á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Rúmeníu 6. júní.
Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 7, Tinna Sigurrós Traustadóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Embla Steindórsdóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 10, Elísa Helga Sigurðardóttir 3.
Hér fyrir neðan er nokkrar myndir sem Guðríður Guðjónsson tók og sendi handbolta.is. Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri.