- Auglýsing -
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk í sex tilraunum þegar Barcelona vann í dag Anaitasuna, 40:23, í spænsku 1. deildinni í handknattleik á heimavelli. Þetta var átjándi sigurleikur Barcelona í deildinni á leiktíðinni og hefur liðið fullt hús stiga í efsta sæti.
Barcelona hafði yfirburði í leiknum í morgun eins og flestum öðrum í spænsku deildinni á þessari og síðustu leiktíðum. Ellefu marka munur var að loknum fyrri hálfleik, 23:12.
Aleix Gómez Abelló var markahæstur hjá Barcelona. Hann skoraði átta mörk. Jure Dolenec var næstur með sex mörk og Domen Makuc skoraði fjórum sinnum. Luka Cindric var ásamt fleiri samherjum sínum með þrjú mörk.
Bidasoa Irun er í öðru sæti deildarinnar, átta stigum á eftir Barcelona. La Rioja, Ademar og Huesca hafa önglað saman 24 stigum hvert.
- Auglýsing -