- Auglýsing -
- Á laugardaginn verður leikið til undanúrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla. Að vanda fara leikirnir fram í Lanxess-Arena í Köln. Gísli Þorgeir Kristjánsson verður í eldlínunni í fyrri viðureign undanúrslitanna þegar SC Magdeburg og Barcelona mætast. Flautað verður til leiks klukkan 13.15. Í síðari leiknum eigast við Kielce frá Póllandi og PSG frá Frakklandi, landsmeistarar beggja landa. Sú viðureign hefst klukkan 16.
- Á sunnudag mætast sigurlið laugardagsins í úrslitaleik Meistaradeildar og tapliðin kljást um bronsverðlaun.
- Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma viðureign SC Magdeburg og Barcelona á laugardaginn. Þetta verður í fjórða sinn sem Anton Gylfi dæmir leiki úrslitahelgar Meistaradeildarinnar en í þriðja sinn sem Jónas verður í eldlínunni.
- Núverandi keppnisfyrirkomulag Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla, það er að leika undanúslit á laugardegi og úrslitaleiki á sunnudegi á sama stað, var tekið upp vorið 2010. Áður léku liðin tvö sem komust í úrslit tvo leiki, heima og að heiman til þess að knýja fram sigurvegara. Lanxess-Arena í Köln hefur frá upphafi verið vettvangur úrslitahelgarinnar.
- Frá 2010 fór Alfreð Gíslason með Kiel í úrslitahelgina í sex skipti og vann tvisvar unnið, 2010 og 2012, vann silfur 2014 og hafnað í fjórða sæti 2013, 2015 og 2016.
- Aron Pálmarsson er sá íslenski handknattleiksmaður sem oftast hefur tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildinnar, tíu sinnum, fimm sinnum með Kiel, í þrjú skipti með Barcelona og tvisvar með Veszprém. Hann var í sigurliði Kiel 2010 og 2012 og fékk silfrið 2014 og 2016. Í síðara skiptið með Veszprém. Aron var í bronsliði Veszprém 2017. Árið 2019 hlaut Aron bronsverðlaun með Barcelona, árið eftir silfur og loks gullverðlaun 2021 í sínum síðasta leik fyrir félagið.
- Guðjón Valur Sigurðsson vann Meistaradeild Evrópu 2015 með Barcelona. Árið áður var Ólafur Gústafsson í sigurliði Flensburg í Meistaradeildinni.
- Róbert Gunnarsson var í liði PSG sem hlaut bronsverðlaun í Meistaradeildinni 2016.
- Ólafur Stefánsson er sá íslenskur handknattleiksmaður sem hefur oftast verið í sigurliði Meistaradeildar Evrópu, fjórum sinnum; 2002 með Magdeburg og 2006, 2008 og 2009 með Ciudad Real. Auk þess var Ólafur í liði Rhein-Neckar Löwen sem hafnaði í fjórða sæti 2011 og í bronsliði AG Köbenhavn 2012 ásamt m.a. Arnóri Atlasyni, Guðjóni Val Sigurðssyni og Snorra Steini Guðjónssyni.
- Guðjón Valur og Róbert Gunnarsson voru m.a. með Ólafi í liði Rhein-Neckar Löwen vorið 2011 undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Liðið tapaði fyrir HSV Hamburg, 33:31, í leiknum um þriðja sætið.
- Alfreð Gíslason þjálfaði Magdeburg þegar liðið vann Meistaradeildina 2002. Hann stýrði Kiel til sigurs í keppninni 2010 og 2012. Aðeins einn þjálfari til vibótar hefur unnið Meistaradeildina með tveimur liðum, Talant Dujshebaev . Hann var þjálfari Ciudad Real á Spáni þegar liðið vann keppnina 2006, 2008, 2009. Dujshebaev stýrði Vive Kielce til sigurs í Meistaradeildinni 2016.
- Aðrir íslenskir þjálfarar en Alfreð Gíslason sem hafa komist í úrslitahelgina eru Guðmundur Þórður Guðmundsson 2011 sem þjálfari Rhein-Neckar Löwen og Dagur Sigurðsson, þjálfari með Füchse Berlín árið eftir. Báðir höfnuðu í fjórða sæti. Arnór Atlason var aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold þegar liðið lék til úrslita fyrir tveimur árum. Aalborg hlaut silfurverðlaun.
- Guðjón Valur Sigurðsson var fyrsti handknattleiksmaðurinn i sögunni til þess að taka þátt í úrslita helginni með fjórum félagsliðum. Hann var með Rhein-Neckar Löwen 2011, AG Köbenhavn 2012, Kiel 2013 og 2014 og Barcelona 2015.
- Barcelona varð fyrst liða til þess að vinna keppnina tvisvar í röð eftir úrslitahelgin var tekin upp. Barcelona vann keppnina í fyrra og árið áður.
- SC Magdeburg er í fyrsta sinn með í undanúrslitum eftir að úrslitahelgin var tekin upp 2010.
- Ómar Ingi Magnússon leikur ekki með SC Magdeburg um helgina vegna meiðsla sem hann er að jafna sig af. Sömu sögu er að segja af Hauki Þrastarsyni leikmanni Kielce.
- Talant Dujshebaev og Filip Jicha eru þeir einu sem unnið hafa Meistaradeildina bæði sem leikmenn og þjálfarar.
- Leikið verður í Lanxess-Arena í Köln sem tekur 19.750 áhorfendur í sæti. Ævinlega hefur verið uppselt báða leikdagana nema 2020 þegar leikið var á milli jóla og nýárs fyrir luktum dyrum og árið eftir þegar takmarkaður fjöldi áhorfenda fékk aðgang.
- Áhugi fyrir leikjum keppninnar hefur vaxið ár frá ári meðal þeirra sem reka sjónvarpsstöðvar en að þessu sinni eru leikir úrslitahelgarinnar sendir út til um 120 landa og hafa aldrei verið fleiri. Engin íslensk sjónarpsstöð fylgist með leikjunum en Íslendingar geta horft á endurgjaldslaust hjá EHFtv.com.
- Barcelona hefur tíu sinnum unnið Meistaradeild Evrópu, 1996-2000, 2005, 2011 og 2015, 2021 og 2022. Kiel hefur unnið fjórum sinnum 2007, 2010, 2012 og 2020.
- Auglýsing -