- Auglýsing -
ÍR-ingar voru fyrstir til þess að vinna ungmennalið Fram í Grill 66-deildinni í handknattleik kvenna í dag er liðin mættust í íþróttahúsinu í Austurbergi. Fram hafði leikið sex leiki og unnið alla þegar kom að heimsókninni í Austurberg þar sem heimaliðið var með yfirhöndina og fagnaði góðum fjögurra marka sigri, 24:20.
Ungmennlið Fram hafði leikið 29 leiki í röð án taps. Síðast laut það í lægra haldi 15. febrúar 2019.
Karen Ösp Guðbjartsdóttir fór á kostum í marki ÍR og varði 17 skot, þar af 3 víti, sem gerir 46% vörslu.
ÍR var með eins marks forskot að loknum fyrri hálfleik, 13:12. Þetta var annar sigur ÍR-kvenna á leiktíðinni og lyfti liðið sér upp í fimmta sæti deildarinnar með þessu góða sigri. Liðið hefur nú fjögur stig. Um leið hljóp aukin spenna í toppbaráttuna þar sem Grótta og Afturelding nálgast Fram-liðið.
Mörk ÍR: Stefanía Ósk Hafberg 6, Ólöf Marín Hlynsdóttir 5, Fanney Ösp Finnsdóttir 5, Hildur Marín Andrésdóttir 3, Hildur María Leifsdóttir 2, Adda Sólbjörg Högnadóttir 1, Sylvia Jónsdóttir 1, Matthildur Lilja Jónsdóttir 1.
Mörk Fram: Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 10, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 4, Svala Júlía Gunnarsdóttir 3, Valgerður Arnalds 2, Elísabet Ósk Ingvarsdóttir 1.
- Auglýsing -