„Mér líst bara mjög vel á næsta leik gegn Grikkjum sem eru með hörkulið Þeir stóðu lengi vel í Egyptum á föstudaginn,“ sagði Kristófer Máni Jónasson leikmaður U21 árs landsliðs karla í samtali við handbolta.is spurður út í viðureignina við Grikki í milliriðlakeppni (16-liða úrslitum) heimsmeistaramótsins sem fram fer í Aþenu í dag og hefst klukkan 14.30.
Um er að ræða fyrri viðureign íslenska landsliðsins í milliriðilakeppninni. Sú síðari verður á morgun, mánudag, við Afríkumeistara Egyptalands.
„Grikkir eru líkamlega sterkir. Það verður bara spennandi að fást við þá auk þess sem það verður örugglega hörkustemning á leiknum. Hingað til hafa margir áhorfendur mætt á leikina hjá heimaliðinu og stemningin verið frábær. Við hlökkum til,“ sagði Kristófer Máni Jónasson.
Leikur Íslands og Grikklands hefst klukkan 14.30 í dag. Handbolti.is verður að vanda með textalýsingu frá leiknum auk þess sem streymt verður frá viðureigninni á youtuberás Alþjóða handknattleikssambandsins.