Íslenska landsliðið vann svo sannarlega vinnusigur á gríska landsliðinu í fyrri viðureign sinni í millriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri í Aþenu í dag. Lokatölur, 29:28, eftir æsilega spennandi lokamínútur. Um tíma blés þó ekki byrlega fyrir íslensku piltunum sem voru fjórum mörkum undir, 21:17, þegar 18 mínútur voru til leiksloka og hvorki gekk né rak.
Fimm mörk í röð frá 42. til 48. mínútu kom íslenska liðinu yfir, 22:21. Eftir það náðu Grikkir aðeins einu sinni að komast einu marki yfir, 24:23, þegar nærri níu mínútur voru til leiksloka. Þrjú mörk í röð á einni mínútu undir lokin komu Íslandi þremur mörkum yfir, 29:26.
Sigurinn eykur enn á möguleika íslenska liðsins á sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Egyptar og Serbar, sem eru í sama riðli eigast við síðar í dag. Takist Egyptum að vinna annað eða bæði stigin í leiknum er leið Íslendinga í átta liða úrslit greið. Grikkir eiga ekki lengur möguleika á sæti í átta liða úrslitum.
Íslenska liðið mætir Afríkumeisturum Egypta á mótinu á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.
Grikkir voru marki yfir í hálfleik, 15:14. Þeir skoruðu þrjú fyrstu mörkin og virtust ætla að taka leikinn með trompi. Íslenska vörnin var dauf framan af en þegar á leið batnaði hún. Ísland komst tveimur mörkum yfir, 11:9, eftir 18 mínútur. Grikkir svöruðu með fjórum mörkum í röð.
Óþægur ljár í þúfu
Gríski markvörðurinn Dimitrios Bampatzanidis reyndist íslensku piltunum óþægur ljár í þúfu. Bampatzanidis skellti í lás í markinu á köflum og varði alls 16 skot, 37%. „Hann varði oft frá okkur þegar við skutum á fyrsta tempói. Um og við fórum bíða aðeins og horfa á hann þá gekk okkur betur að skora hjá hjá honum,“ sagði Andri Már Rúnarsson í samtali við handbolta.is eftir leikinn.
Mörk Íslands: Andri Már Rúnarsson 6, Benedikt Gunnar Óskarsson 6/4, Kristófer Máni Jónasson 6, Símon Michael Guðjónsson 5, Tryggvi Þórisson 2, Einar Bragi Aðalsteinsson 2, Ísak Gústafsson 1, Stefán Orri Arnalds 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 7, 28% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 3, 23%.
HMU21: Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.