- Auglýsing -
- Rakel Dórothea Ágústsdóttir hefur ákveðið að ganga til liðs við Stjörnuna frá HK. Hún er 17 ára gömul og varð fjórða markahæst í Grill 66-deildinni á síðasta keppnistímabili með 98 mörk. Rakel Dóróthea stendur í ströngu í sumar með U17 ára landsliði kvenna sem spilar á EM í Svartfjallalandi í ágúst.
- Aníta Björk Valgeirsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild FH. Aníta Björk var síðastliðið tímabil ein af lykilleikmönnum FH liðsins. Hún býr yfir talsverðri reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Aníta Björk varð fyrir því óláni að slíta krossbönd í lok síðasta tímabils og verður því ekki klár í slaginn fyrr en á nýju ári.
- Marga Dani rak í rogastans þegar í ljós kom að handknattleikskonan Anja Andersen var ekki á meðal þeirra 30 handknattleikskvenna sem fyrstar voru teknar inn í Heiðurshöll Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í fyrrakvöld.
- Andersen var um árabil fremsta handknattleikskona heims og er að margra mati sú allra besta sem leikið hefur íþróttina. EHF svaraði dönsku fjölmiðlum í gær á þann veg að síðar verði fleiri konur valdar í Heiðurshöllina.
- Hinn þrautreyndi handknattleiksþjálfari Manuel Cadenas hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu sem þjálfari Ademar León á Spáni. Cadenas, sem er 68 ára gamall, veiktist á dögunum og ákvað að draga saman seglin í kjölfarið. Dani Gordo tekur við þjálfun Ademar León af Cadenas sem í janúar skrifaði nýjan þriggja ára samning við félagið.
- Serbneski landsliðsmaðurinn Uroš Borzaš sem leikið hefur með Elverum í Noregi síðustu tvö ár hefur samið við Eurofarm Pelister, landsmeistara Norður Makedóníu og flytur sig um set í sumar.
- Auglýsing -