- Auglýsing -
- Ungverjar hafa ekki leikið um gullverðlaun á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða karla síðan 1977. Þeir mæta Þjóðverjum í úrslitaleik í Max Schmeling Halle í Berlín í dag. Flautað verður til leiks klukkan 16. Í gærkvöld voru seldir ríflega 8.000 miðar á úrslitaleikinn og ljóst að Ungverjar verða að berjast við Þjóðverja utan vallar sem innan.
- Hið árlega og sívinsæla handknattleiksmót barna- og unglinga, Partille Cup, hefst í Svíþjóð á morgun. Alls taka 1.189 lið þátt í mótinu frá 34 löndum. Leikir þess verða 4.094. Að vanda taka mörg lið frá Íslandi þátt í Partille. Samkvæmt heimasíðu mótsins eru 25 íslensk lið skráð til leiks. Ísland er í fimmta sæti þegar kemur að fjölda liða á mótinu.
- Skiljanlega er flest liðin á Partille sænsk. Þar á eftir koma Norðmenn, þá Danir og Þjóðverjar. Ísland er næst á eftir Þýskalandi með helming af fjölda lið frá Þýskalandi.
- Frakkinn Philippe Gardent verður þjálfari PAUC, liðsins sem Kristján Örn Kristjánsson, Donni, leikur með. Hann er ráðinn til eins árs en líkur eru á að Svíinn Magnus Andersson komi til félagsins þegar samningur við Porto gengur út. Gardent er þekktur handknattleiksmaður frá árum áður. Hann var m.a. í sigurliði Frakka á HM 1995 á Íslandi. Í upphafi aldarinnar var Gardent valinn besti línumaður Frakklands. Gardent hefur víða komið við í þjálfun en var síðast hjá Bordeaux.
- Danski landsliðsmaðurinn Rasmus Lauge hefur kvatt ungverska meistaraliðið Veszprém eftir fjögurra ára veru. Hann verður liðsmaður Bjerringbro/Silkeborg í heimalandi sínu á næstu leiktíð. Lauge er 32 ára gamall og hefur lengi leikið utan Danmerkur. Hann var árum saman í Þýskalandi áður en hann fór til Ungverjalands.
- Auglýsing -