„Símtalið kom mér mjög á óvart. Ég er mjög glöð enda spennandi verkefni að fást við,“ sagði hin 19 ára gamla Eva Dís Sigurðardóttir, ein þriggja markvarða, sem valdar voru í æfingahóp íslenska landsliðsins sem kemur saman til æfinga um miðja næsta viku. Eva Dís er markvörður Aftureldingar og er eini leikmaður hópsins sem ekki leikur með liði í Olísdeildinni en Afturelding leikur í Grill 66-deildinni um þessar mundir.
„Ég bjóst ekki við að verða valin og stefni bara á að gera mitt besta á æfingunum. Mér finnst frábært að landsliðsþjálfarinn skuli líka horfa til leikmanna sem eru í Grill-deildinni vegna þess að deildin er mjög góð og í henni eru margir flottir leikmenn,“ sagði Eva Dís þegar handbolti.is hitti hana eftir viðureign Aftureldingar og Fjölnis-Fylkis á miðvikudagskvöld en fyrr þann dag var landsliðshópurinn opinberaður. „Mér finnst þetta ótrúlega spennandi tækifæri og hlakka til að taka þátt í þessu.“
Byrjaði sjö ára
Eva Dís er 19 ára gömul og hefur æft handbolta síðan hún var sjö ára. Hún segir vel staðið að handboltanum hjá Aftureldingu og vel hugsað um kvennaliðið sem hefur gert það gott á undanförnum árum og verið á ferð á milli Olís,- og Grill 66-deildanna.
Eva Dís er núna á sínu þriðja keppnistímabili með meistaraflokki Aftureldingar. Hlutverk hennar hefur vaxið jafnt og þétt með hverju keppnistímabilinu. „Núna fæ ég yfirleitt sextíu mínútur í hverjum leik sem mér finnst frábært. Vonandi verður það svoleiðis áfram. Þá verð ég bara betri,” sagði Eva Dís sem byrjaði snemma að æfa mark eftir að hún fór að mæta á handboltaæfingar. En af hverju markið?
„Ég var sú eina sem þorði að vera í markinu,” svaraði Eva Dís og hló og bætti síðan við. „Síðan hef ég verið þar. Það var í fimmta flokki.“
Freistandi að leika úti
Spurð hvort hún hafi aldrei viljað skipta um stöðu og leika annarstaðar á vellinum viðurkennir Eva Dís að hún hafi leitt hugann að því. „Það hefur verið mjög freistandi að leika úti og stundum tekið þátt í því sem samherjar mínir eru að gera og æfa. En ég hef fílað mig vel í markinu og held mig bara við það.“
Eva Dís nýtur leiðsagnar Einars Bragasonar, markvarðaþjálfara. Hún segir Einar hafa hjálpað sér mikið í vetur. „Við höfum náð mjög vel saman. Einar er geggjaður þjálfari eins og Gummi [Guðmundur Helgi Pálsson].“
Hörkukeppni framundan
Aftureldingu hefur vegnað vel í Grill 66-deildinni eftir að hafa fallið úr Olísdeildinni á síðasta vori. Liðið hefur unnið fimm leiki og tapað tveimur og er tveimur stigum á eftir Gróttu sem er um þessar mundir aðalkeppinauturinn um efsta sætið auk ungmennaliða Fram og Vals sem geta ekki færst upp um deild í vor.
„Við erum á góðri siglingu og stefnum á að fara rakleitt upp aftur. Það er okkar markmið. Andinn er frábær innan liðsins og við styðjum hverja aðra,“ segir Eva Dís Sigurðardóttir, markvörður Aftureldingar sem mætir á fyrstu æfingu landsliðsins á miðvikudaginn. Æfingar verða dagana 17. til 21. þessa mánaðar.
Einbeitt og vill ná langt
„Eva Dís er frábær íþróttamaður sem æfir eins og atvinnumaður og er mjög einbeitt í sínu og vill ná langt. Við erum mjög stolt af henni og ég alveg sérstaklega. Valið í landsliðshópinn er ekki aðeins heiður fyrir hana heldur félagið í heild sinni,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar, spurður um Evu Dís.
„Ég vona að Eva haldi áfram á þeirri braut sem hún er á. Eva er ung og lítt reynd. Það er ómetanlegt fyrir hana að fá leiktíma í Grill 66-deildinni því deildin er hörkugóð,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson í samtali við handbolta.is.