Með góðri frammistöðu í síðari hálfleik í kvöld tókst U19 ára landsliði Íslands að vinna Hollendinga með sjö marka mun, 34:27, í fyrsta leik sínum á æfingamóti í handknattleik í Hansehalle í Lübeck. Hollendingar voru sterkari í fyrri hálfleik og voru tveimur mörkum yfir að honum loknum, 16:14. Íslensku piltarnir mæta þýskum jafnöldrum sínum á sama stað annað kvöld.
„Þetta var basl lengi vel en þegar við breyttum varnarleiknum í síðari hálfleik, fórum úr 6/0 í 5/1, þá snerist leikurinn okkur í vil og var okkar eign eftir það,” sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara landsliðsins við handbolta.is eftir leikinn.
Ívar Bessi fór á kostum
„Ívar Bessi Viðarsson kom inn í vörnina og lék fyrir framan síðustu 20 mínúturnar. Hann stal boltanum að minnsta kosti fimm sinnum. Ívar Bessi og Ísak Steinsson markvörður voru okkar bestu menn. Ísak varði 15 skot, þar af 10 í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vörnin væri slök,” sagði Heimir ennfremur.
Íslenska liðið byrjaði illa, ekki síst í vörninni og var undir allan fyrri hálfleikinn. Mestur varð munurinn fjögur mörk, 12:8. Tveimur mörkum skakkaði eftir fyrri hálfleik, 16:14. Hollendingar voru yfir.
„Okkur tókst aðeins að minnka muninn en fórum illa með færin okkar auk þess sem varnarleikurinn var ekki viðunandi,” sagði Heimir ennfremur.
Jöfnuðu fyrst metin í 22:22
Eftir um það bil tíu mínútur í síðari hálfleik tókst íslensku piltunum að jafna metin, 22:22.
„Hollendingar réðu ekki við breytinguna á vörninni okkar,” sagði Heimir sem var vitanlega ánægður með sjö marka sigur þegar upp var staðið.
Viðureignin var sú fyrsta af fimm sem piltarnir leika á næstu 10 dögum til undirbúnings fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu sem hefst í byrjun ágúst í Króatíu.
Mörk Íslands: Reynir Þór Stefánsson 10, Daníel Örn Guðmundsson 7, Andri Fannar Elísson 5, Eiður Rafn Valsson 3, Kjartan Þór Júlíusson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Atli Steinn Arnarsson 1, Hinrik Hugi Heiðarsson 1, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 15.