Ekkert verður af því að norska karlalandsliðið í handknattleik verði á heimavelli í forkeppni Ólympíuleikanna í næsta mánuði. Vegna strangra sóttvarnareglna í Noregi er ekki mögulegt að Norðmenn standi fyrir keppninni. Nú er leitað að öðrum keppnisstað.
Norska handknattleikssambandið hafði tekið að sér forkeppnina áður en kórónuveirufaraldur braust út og stóð til að forkeppnin færi fram í mars á síðasta ári.
Reiknað er með að leikir riðilsins verði háðir í Frakklandi eða í Þýskalandi. Talsmaður norska handknattleikssambandsins segir að lausnar sé leitað í samvinnu við Alþjóða handknattleikssambandið og forsvarsmenn þeirra landsliða sem verða í riðli með norska landsliðinu.
Til stendur að leikið verði í þremur riðlum forkeppninnar 12., 13. og 14. mars og tryggja tvö af fjórum liðum hvers riðils sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó sem eiga að fara fram í lok júlí og í fyrri hluta ágúst í sumar.
Norska landsliðið verður í riðli með Brasilíu, Chile og Suður-Kóreu.
Ákveðið er að Frakkar verði gestgjafar eins riðilsins sem leikinn verður í Montpellier og Þjóðverjar verða með leiki eins riðils á sinni könnu þar sem auk landsliðs þeirra taka þátt Slóvenar, Svíar og Alsírbúar.
Í riðlinum í Montpellier reyna með sér auk Frakka, Króatar, Túnisbúar og Portúgalar.