Danska handknattleikskonan Ida Margrethe Hoberg Rasmussen sem lék með KA/Þór frá áramótum og út leiktíðina í vor hefur samið við þýska 1. deildarliðið Blomberg-Lippe. Rasmussen kom til þýska liðsins með skömmum fyrirvara í upphafi vikunnar eftir að einn leikmanna Blomberg-Lippe sleit krossband í síðustu viku.
Ramussen hefur þegar æft þrisvar sinnum með Blomberg-Lippe og þykir lofa góðu með hana, eftir því sem fram kemur á heimsíðu félagsins. Svo vel að ekki var hikað við að bjóða henni samning.
Ramussen, sem er 20 ára gömul hægri handar skytta og einnig miðjumaður kom til KA/Þórs frá Randers HK í lok desember. Áður var hún í Viborg HK en hún kemur upp úr yngriflokkastarfi félagsins. Rasmussen skoraði 39 mörk í níu leikjum með KA/Þór í Olísdeildinni auk 19 marka í þremur viðureignum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Í fótspor Íslendinga
Blomberg-Lippe er með bækistöðvar í bænum Lippe í Norðurrín-Vestfalíu. Rúmur áratugur er síðan Hildur Þorgeirsdóttir og Karen Knútsdóttir léku með liðinu sem þá, eins og nú, lék í efstu deild þýska handknattleiksins. Blomberg-Lippe sækir BSV Sachsen Zwickau heim í fyrstu umferð þýsku 1. deildarinnar laugardaginn 9. september.