- Auglýsing -
- Handknattleiksdeild Víkings hefur samið við Jens Gunnarsson að stýra kvennaliði Berserkja í vetur ásamt 3. flokki kvenna hjá Víkingi. „Með Jens kemur 30 ára reynsla af þjálfun en hann hefur þjálfað hjá Gróttu, ÍR, UMFA og Haukum. Á þessum tíma hefur hann komið að þjálfun yngri flokka og upp í meistaraflokk kvenna,“ segir m.a.í tilkynningu frá Víkingi í gær.
- U17 ára landslið Íslands í handknattleik kvenna hefur þátttöku á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi í dag. Fyrsti leikurinn verður við heimaliðið. Flautað verður til leiks klukkan 16 að íslenskum tíma. Handbolti.is verður með textalýsingu frá leiknum. Hægt verður að fylgjast með endurgjaldslausu streymi á ehftv.com. Íslenska liðið kom til Podgorica í fyrradag og nýtti daginn í gær vel til þess að búa sig undir átökin sem framundan eru.
- U19 ára landslið Barein fékk draumabyrjun á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Króatíu í gær. Bareinar, sem leika undir stjórn Maksim Akbachev, unnu Suður-Kóreu í hörkuleik, 32:28, eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 14:13. Bareinar standa vel að vígi í keppni um annað af tveimur efstu sætunum í D-riðli. Þeir mæta Spánverjum í dag. Spánn lagði Brasilíu í gær, 38:29.
- Óvænt úrslit urðu í leik Svía og Írana í H-riðli heimsmeistaramóts 19 ára landsliða karla í Opatija í Króatíu í gær. Lið þjóðanna skildu jöfn, 26:26. Svíar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9. Íranar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins.
- Í sama riðli unnu Færeyingar öruggan sigur á liði Afríkuríkisins Búrúndí, 53:21, eftir að hafa verið 22 mörkum yfir í hálfleik, 30:8. Óli Mittún skoraði 11 mörk í 12 skotum fyrir færeyska liðið.
- Slóvenski línu- og landsliðsmaðurinn Igor Zabic sem kvaddi Kadetten Schaffhausen í skyndi í upphafi vikunnar samdi í gær við gríska meistaraliðið AEK Aþenu til eins árs.
- Bosníski handknattleiksmaðurinn Marko Panic hefur sagt skilið við Montpellier í Frakklandi og samið við Wisla Plock. Samningur Panic við Plock er til tveggja ára.
- Auglýsing -