- Auglýsing -
- Samkvæmt heimildum handbolta.is hefur Sveinn Andri Sveinsson æft með ÍR síðustu daga en hann hefur enn sem komið er ekki fengið samning utan lands. Sveinn Andri lék með Empor Rostock í þýsku 2. deildinni á síðasta keppnistímabili. Hann meiddist síðla vetrar og missti af síðustu leikjum tímabilsins áður en liðið féll í 3. deild.
- Arnar Freyr Arnarsson mætti galvaskur til leiks og skoraði þrjú mörk þegar MT Melsungen vann Gummersbach í æfingaleik í fyrrakvöld. Arnar Freyr sat hjá vegna lítilsháttar meiðsla þegar Melsungen lék æfingaleik um síðustu helgi. Elvar Örn Jónsson hefur náð góðum bata eftir meiðsli í vor skoraði fimm mörk fyrir Melsungen sem vann leikinn með einu marki, 31:30. Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach. Hákon Daði Styrmisson skoraði ekki mark í leiknum.
- U19 ára landslið Barein, sem er undir leiðsögn Maksim Akbachev, tapaði í gær fyrir Spáni í annarri umferð D-riðils á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Króatíu, 29:18. Brasilía lagði Suður Kóreu, 31:30. Brasilía og Barein kljást um annað sæti riðilsins á morgun og keppnisrétt í 16-liða úrslitum.
- Eftir tap fyrir Írönum í gær, 29:27, verða Færeyingar að vinna Svía í lokaumferð riðlakeppni HM 19 ára landsliða í handknattleik karla á morgun. Íranar eru ásamt Svíum með þrjú stig í riðlinum en Færeyingar tvö stig. Búrúndimenn eru heillum horfnir og alveg ljóst að miðað við spilamennsku þeirra í tveimur fyrstu leikjunum eru engar líkur fyrir að þeir leggi stein í götu Írana á morgun.
- Færeyingar byrjuðu vel í leiknum við Írana í gær og voru m.a. fjórum mörkum yfir í hálfleik, 13:9. Íranar léku afar vel í síðari hálfleik reyndar eins og þeir gerðu í fyrradag í jafnteflisleiknum við Svía, 26:26.
- Christos Kotzamanidis, sem stundum hefur verið nefndur faðir handknattleiks í Grikklandi lést á dögunum 73 ára að aldri. Kotzamanidis stóð fyrir fyrsta handboltaleiknum í Florina í Grikklandi árið 1977 og var ötull við að kynna íþróttina í landinu allt fram á síðasta ár, lengst af samhliða starfi sínu sem íþróttakennari.
- Brasilíumaðurinn Joao da Silva og Spánverjinn Eduardo Gurbindo voru leystir undan samningi við Dinamo Búkarest í vikunni. Talið er að félagið sé að mæta útgjöldum vegna væntanlegrar komu Króatans Luka Cindric frá Barcelona.
- Gurbindo var orðaður í gær við þýska meistaraliðið THW Kiel sem leitar að örvhentri skyttu til þess að hlaupa í skarðið fyrir Steffen Weinhold sem er frá vegna meiðsla í öxl og ungstirnisins Henri Pabst sem einnig meiddist á dögunum, reyndar í vináttuleik U19 ára landslið Ísland og Þýskalands.
- Auglýsing -