- Auglýsing -
- Grétar Ari Guðjónsson varði 12 skot og var með 31% hlutfallsmarkvörslu þegar lið hans Nice tapaði með minnsta mun, 28:27, fyrir Pontault í frönsku B-deildinni í handknattleik á heimavelli í gærkvöld. Pontault var fimm mörkum yfir í hálfleik, 16:11. Grétar Ari og félagar voru nærri því að ná öðru stiginu í leiknum. Nice situr í áttunda sæti deildarinnar en Pontault er í þriðja sæti eins og Cherbourg og Saran sem eru í tveimur efstu sætunum.
- Hinn gamalreyndi þýski landsliðsmaður, Christian Zeitz, var sá fyrsti til að fá bláa spjaldið á leiktíðinni í þýsku 1.deildinni í handknattleik. Zeitz, sem leikur með GWD Minden, fékk bláa spjaldið í viðureign GWD Minden og Nordhorn í fyrrakvöld. Hann á yfir höfði sér leikbann.
- Spænska landsliðskonan Nerea Pena hefur samið við Vipers Kristiansand til næstu tveggja ára. Pena kom til dönsku meistaranna í Esbjerg í haust eftir að hafa gripið óyndi hjá ungverska liðinu Siofok. Pena gerði í haust samning við Esbjerg til loka þessa leiktíðar til að létta liðinu róðurinn meðan margir leikmenn liðsins eru alvarlega meiddir.
- Markvörðurinn Tibor Ivanisevic yfirgefur Wetzlar eftir keppnistímabilið. Hann er sterklega orðaður við Gummersbach sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar.
- Portúgalski landsliðsmaðurinn Gilberto Duarte hefur orðið að draga sig út úr landsliðinu fyrir átökin í forkeppni Ólympíuleikanna í næsta mánuði vegna þrálátra meiðsla í öxl.
- Ekkert verður leikið í tveimur efstu deildum karla og kvenna í Noregi fyrr enn í fyrsta lagi í mars. Keppni hefur legið niðri síðan um miðjan janúar. Í gær var síðan tilkynnt að áfram verði bann við kappleikjum, að minnsta kosti til 1. mars. Þá verður staðan endurskoðuð.
- Auglýsing -