Bikarmeistarar Aftureldingar í handknattleik karla hafa fengið Jakob Aronsson línumann úr Haukum að láni. Jakob lék sinn fyrsta opinbera leik með Aftureldingu á fimmtudaginn gegn HK í UMSK-mótinu. Skoraði hann þrjú mörk og féll vel að leik Aftureldingar, að sögn velunnara handbolta.is sem fylgdist haukfránum augum með leiknum.
Tveir línumenn
Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar staðfesti við handbolta.is að Jakob verði með Aftureldingu á næsta tímabili í Olísdeildinni á lánasamningi frá Haukum. Aftureldingu hafi vantað aukna breidd í línumannsstöðuna en fyrir hafi verið Þorvaldur Tryggvason sem skipti yfir til Aftureldingar frá Fram í sumar. Skarð var fyrir skildi eftir að Einar Ingi Hrafnsson lagði keppnisskóna á hilluna í vor eftir farsælan og langan feril.
Jakob, sem er sonur handknattleikshjónanna Arons Kristjánssonar og Huldu Bjarnadóttur, hefur leikið upp yngri flokka Hauka og lítillega leikið með meistaraflokki liðsins auk þess að vera mikið með U-liði Hauka í Grill 66-deildinni.
Karlar – helstu félagaskipti 2023