- Auglýsing -
- Herbert Ingi Sigfússon hóf í gær störf á skrifstofu Handknattleikssambands Íslands. Í tilkynningu segir að Herbert Ingi eigi að sinna almennri vinnu á skrifstofunni. Síðustu ár hefur hann unnið hjá handknattleiksdeild Hauka.
- Samhliða ráðningu Herberts Inga var tilkynnt að Magnús Kári Jónsson hafi látið af störfum hjá HSÍ eftir átta ár. Hann hefur m.a. haldið utan um dómaramál sambandsins með miklum sóma. Magnús Kári hefur á næstunni störf hjá ÍBR.
- Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í BSV Sachsen Zwickau unnu tékkneska liðið DHK Baník Most á heimavelli í gær, 27:26, í fyrsta æfingaleik liðsins á undirbúningstímabilinu. Í kvöld hefur BSV Sachsen Zwickau þátttöku á æfingamóti (Sirona Cup) og mætir m.a. HSG Bensheim/Auerbach, Bayer Levekusen og TuS Metzingen sem Sandra Erlingsdóttir leikur með.
- Henrik Kronborg þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Skjern í handknattleik karla lætur af störfum hjá félaginu við lok leiktíðar í upphafi næsta sumars. Félagið tilkynnti þetta í gærmorgun og sagði að Kornborg, sem einnig er aðstoðarþjálfari danska karlalandsliðsins, hafi afþakkað nýjan samning. Kornborg tók við fljótlega eftir að Patrekur Jóhannesson hætti þjálfun Skjern fyrir rúmum þremur árum.
- Franski markvörðurinn Vincent Gerard sem gekk til liðs við þýsku meistarana, THW Kiel í sumar, leikur ekki með liðinu í fjórar til sex vikur vegna meiðsla sem hann varð fyrir í æfingaferð liðsins til Austurríkis í síðustu viku. Aðeins er vika í fyrsta leik Kiel á leiktíðinni, gegn Rhein-Neckar Löwen í Meistarakeppninni þar sem mætast meistarar og bikarmeistarar síðasta tímabils.
- Tékkneski markvörðurinn Tomas Mrkva stendur væntanlega vaktina í marki Kiel á meðan Gerard verður fjarverandi. Táningurinn Magnus Bierfreund verður Mrkva til halds og trausts.
- Franski landsliðsmaðurinn og fyrirliði franska meistaraliðsins PSG, Luka Karabatic, hefur framlengt samning sinn við félagið fram til ársins 2025. Luka kom til félagsins fyrir átta árum frá PAUC.
- Auglýsing -