Íslenska tríóið hjá Skara HF fagnaði sigri í 1. umferð sænsku bikarkeppninnar í kvennaflokki í kvöld þegar liðið sótti Torslanda HK heim. Lokatölur 31:28, fyrir Skara sem var marki undir að loknum fyrri hálfleik. Aldís Ásta Heimisdóttir, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Katrín Tinna Jensdóttir leika allar með Skara HF.
Berta Rut Harðardóttir skoraði sex mörk í stórsigri Kristianstad á Elslöv í riðli tvö í bikarkeppninni, 39:17. Þetta var fyrsti opinberi leikur Bertu Rutar með liðinu en hún kom til þess frá Holstebro í Danmörku í sumar. Berta Rut og félagar mæta Höörs H65 á þriðjudaginn í annarri umferð.
Aldís Ásta með fimm
Aldís Ásta skoraði fimm sinnum fyrir Skara í kvöld og Jóhanna Margrét fylgdi fast á eftir með þrjú mörk. Katrín Tinna, sem gekk til liðs við Skara HF í sumar frá Volda í Noregi, skoraði ekki mark en lét að sér kveða í vörninni.
Næsti leikur Skara í bikarkeppninni verður við Hallby áður en síðasti leikur riðlakeppninnar verður á móti Hammarby. Tvö efstu lið hvers riðils taka sæti í 16-liða úrslitum.