Þýsku liðin Hannover-Burgdorf og Rhein-Neckar Löwen, sem hafa Íslendinga innanborðs, standa vel að vígi eftir fyrri leiki sína í undankeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik karla sem fram fóru í gær. Síðari viðureignirnar fara fram eftir viku en alls taka 10 lið þátt í undankeppninni.
Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason léku báðir með Rhein-Neckar Löwen þegar liðið vann Vadar í Skopje í Norður Makedóníu með níu marka mun, 34:25. Eftir jafna stöðu í hálfleik, 14:14, tóku leikmenn Rhein-Neckar Löwen öll völd á leikvellinum í síðari hálfleik. Ýmir Örn var fastur fyrir í vörninni að vanda auk þess sem hann skoraði eitt mark. Arnór Snær, sem kom til félagsins í sumar, skoraði ekki að þessu sinni.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða í fyrsta sinni í framhaldi af frábærum árangri í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð. Hannover-Burgdorf fór til Ystad í Svíþjóð og vann með fimm marka mun, 33:28. Ystad var á meðal andstæðinga Vals í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á síðasta keppnistímabili.
Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma síðari viðureign Hannover-Burgdorf og Ystads IF HF í Hannover á laugardaginn.
Tvær viðureignir til viðbótar fóru fram í undankeppni Evrópudeildar karla í gær.
RK Trimo Trebnje (Slóvenía) – ABC de Braga (Portúgal) 31:29.
Aguas Santas (Portúgal) – Pfadi Winterthur (Sviss) 24:22.
Uppfært – leikur í dag, sunnudag:
CSM Constanta (Rúmeníu) – Granollers (Spáni) 27:29.
Sigurliðin taka sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem fram fer í október, nóvember og desember.