Íslandsmeistarar Vals taka á móti bikar- og deildarmeisturum ÍBV í Meistarakeppni kvenna í handknattleik í Origohöllinni síðdegis. Flautað verður til leiks klukkan 17.30. Viðureignin markar upphaf leiktíðarinnar í handknattleik kvenna hér á landi. Framundan er annasamt tímabil þar sem hæst ber þátttaka landsliðsins á HM í lok nóvember og framan af desembermánuði.
Börðust á öllum vígstöðvum
Valur vann Íslandsmeistaratitilinn í vor eftir rimmu við ÍBV í úrslitum sem lauk í þremur viðureignum. Áður öttu liðin kappi um deildarmeistaratitilinn þar sem á ýmsu gekk en svo fór að ÍBV hafði betur. ÍBV og Valur mættust einnig í úrslitum Poweradebikarsins í mars. Ljóst má vera af þessu að liðin voru þau öflugustu í kvennahandknattleik hér á landi á síðasta tímabili. Reikna má með að lítil breyting hafi orðið á.
Nokkrir leikmenn beggja liða eru meiddir og ljóst að þjálfararnir tefla ekki fram sínum sterkustu liðum í leiknum í kvöld. Það kemur þó vart í veg fyrir að hart verði tekist á eins og alltaf þegar þessi lið mætast á handboltavellinum.
Fyrir neðan auglýsinguna er teknar saman helstu breytingar á liðunum frá síðasta keppnistímabili.
Valur, helstu breytingar. Komnar: Hafdís Renötudóttir frá Fram. Lovísa Thompson frá Ringköbing. Farnar: Andrea Gunnlaugsdóttir til Fram. Anna Karólína Ingadóttir til Gróttu. Berglind Gunnarsdóttir til ÍR (lán). Brynja Katrín Benediktsdóttir til FH (lán). Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir til FH (lánasamningur). Karlotta Kjerúlf Óskarsdóttir til Gróttu. Saga Sif Gísladóttir til Aftureldingar. Sara Dögg Hjaltadóttir til ÍR (lán). Signý Pála Pálsdóttir til Víkings.
ÍBV, helstu breytingar. Komnar: Ásdís Guðmundsdóttir frá Skara HF. Britney Cots frá Stjörnunni. Dagbjört Ýr Ólafsdóttir frá ÍR. Margrét Castillo frá Fram. Farnar: Alexandra Viktorsdóttir til Danmerkur. Harpa Valey Gylfadóttir til Selfoss. Tara Sól Úranusdóttir til Víkings.