Ekki tókst leikmönnum Þórs að vefjast fyrir liðsmönnum Aftureldingar í viðureign liðanna í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Mosfellingar voru reynslunni ríkari eftir viðureign liðanna í haust og léku af miklum krafi og tókst að auka jafnt og þétt við forskot sitt svo að lokum var 12 marka munur, 36:24, fyrir Aftureldingu þegar upp var staðið.
Eftir tvo tapleiki í röð þá voru leikmenn Aftureldingar ekki mættir í höfuðstað Norðurlands til þess að tapa þriðja leiknum. Eftir jafnar upphafsmínútur sigldu Mosfellingar framúr. Þeir voru með þriggja marka forskot í hálfleik, 18:15.
Í síðari hálfleik breikkaði bilið á milli liðanna. Þórsarar skoruðu aðeins níu mörk og virtust missa móðinn þegar á leið. Aftureldingarmenn gengu á lagið og unnu stórsigur.
Guðmundur Bragi Ástþórsson fór á kostum í liði Aftureldinar. Hann skoraði fimm mörk en átti þátt í 14 í kveðjuleik sínum fyrir Aftureldingu en Haukar hafa kallað hann til baka úr láni eftir mánaðardvöl í Mosfellsbæ. Blær Hinriksson átti einnig góðan leik eins og Þórsarinn í Aftureldingarliðinu, Gunnar Kristinn Malmquist. Hann kunni vel við sig á fjölum Íþróttahallarinnar.
Það syrtir í álinn hjá Þórsliðinu með hverju tapinu á fætur öðru. Ekki létti það liðinu róðurinn í erfiðri stöðu að sjá á bak fyrirliða sínum og leikstjórnanda, Valþóri Atla Guðrúnarsyni, en hann varð tilneyddur til að hætta vegna meiðsla. Markvörðurinn Arnór Freyr Stefánsson lék ekki með Aftureldingu að þessu sinni.
Mörk Þórs: Ihor Kopyshynskyi 6/3, Sigurður Kristófer Skjaldarson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Karolis Stropus 3, Þórður Ágústsson 3, Aron Hólm 2, Gísli Jörgen Gíslason 1, Hafþór Ingi Halldórsson 1.
Varin skot: Arnar Þór Fylkisson 8, 29,6% – Jovan Kukobat 5, 25%.
Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 9/2, Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson 8, Guðmundur Bragi Ástþórsso 5, Bergvin Þór Gíslason 4, Einar Ingi Hrafnsson 3, Þrándur Gíslason Roth 3, Arnar Ingi Rúnarsson 1, Hilmar Ásgeirsson 1, Guðmundur Árni Ólafsson 1, Þorsteinn Leó Gunnarsson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 8, 47,1 % – Bjarki Snær Jónsso 6, 28,6%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.