„Sigurinn var svo sannarlega sannfærandi í dag. Við vikum aldrei undan, heldur lékum af fullum þunga í 60 mínútur. Vörnin var stórkostleg. Eftir að hafa lent á vegg í gær þá unnum við vel í okkar málum síðasta sólarhringinn. Það var frábært að sjá viðbrögð manna í dag,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolta.is í kvöld eftir að FH-ingar unnu Diomidis Argous, 26:18, í síðari viðureigninni í Argos. Liðin skildu með skiptan hlut í gær, 32:32. FH heldur þar með áfram í Evrópubikarkeppninni en gríska liðið eru úr leik.
„Þetta var mun erfiðara en maður hélt fyrir fram. Við vorum í mesta basli í gær því það voru sérstaklega tveir leikmenn sem gerðu okkur lífið erfitt. Í dag vorum við með réttu svörin og vörnin var frábær,“ sagði Sigursteinn en FH fékk aðeins 18 mörk á sig í leiknum, þar af 11 á fyrstu 45 mínútunum.
Þetta er ástæðan
„Ofan á annað þá voru aðstæður mjög erfiðar en um leið mjög mikilvægar fyrir unga leikmenn að kynnast. Þetta er nú ein þeirra ástæða þess að við erum að fara með liðin okkar í Evrópukeppni, til að leikmenn kynnist erfiðum aðstæðum og andstreyminu,“ sagði Sigursteinn sem átti varla orð til þess að lýsa hávaðanum í keppnishöllinni á báðum leikjum.
Allir með gaslúðra
„Ég hef tekið þátt í stórum leikjum og verið í miklu hávaða en fátt ef nokkuð jafnast á við hávaðann í þessum leikjum. Það var engu líkara en að allir hafi fengið gaslúðra við innganginn,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolti.is.
FH-ingar koma ekki heim fyrr en á þriðjudaginn. Þeir nýta sér beint flug Play til og frá Aþenu. Næsti leikur FH í Olísdeildinni verður á föstudaginn gegn Víkingi í Kaplakrika.