Ekki færri en tíu handknattleiksmenn hafa á síðustu dögum fengið félagaskipti yfir til liðs Hvíta riddarans sem skráð er til leiks í 2. deild karla.
Hvíti riddarinn er með bækistöðvar í Mosfellsbæ og virðist tengt hinu rótgróna ungmennafélagi bæjarfélagsins, Aftureldingu. Bæjarblaðið Mosfellingur sagði frá því á dögunum að Einar Ingi Hrafnsson, sem lagði skóna á hilluna í vor, verði þjálfari Hvítu riddaranna.
Átta leikmennirnir af tíu koma til riddaraliðsins frá Aftureldingu, einn úr röðum Berserkja og einn frá Þrótti.
HSÍ hefur þegar staðfest vistaskipti Böðvars Scheving Guðmundssonar, Péturs Júníussonar, Daníels Þórs Knútssonar, Björgvins Franz Björgvinssonar, Kristófers Beck Bjarkasonar, Hilmars Ásgeirssonar, Ágústs Atla Björgvinssonar og Vals Þorsteinssonar úr Aftureldingu yfir í Hvíta riddarann.
Að auki hefur Elvar Magnússon yfirgefið Berserki og bæst í hópinn hjá Hvíta riddaranum. ÍR-ingurinn Daníel Ingi Guðmundsson einnig ákveðið að ganga riddaraliðinu á hönd.
Viðbúið er að fleiri leikmenn bætist í hópinn á næstu dögum.
Fyrsti leikur 2. deildar verður 30. september þegar Hvítu riddararnir storma yfir Hellisheiði og eftir þjóðveginum til Selfoss og takast á við ungmennalið Selfoss.
Sex lið eru skráð til leiks í 2. deild karla.
Hvíti riddarinn ætlar einnig að sækja fram í Poweradebikarnum hefur skráð sig til leiks. Dregið verður í fyrstu umferð Poweradebikarsins í dag.