- Auglýsing -
- Handknattleiksmaðurinn Tómas Helgi Wehmeier, sem lék með Kórdrengjum á síðasta tímabili, hefur fengið félagaskipti til Víðis í Garði. Víðismenn stefna á þátttöku í 2. deild annað árið í röð.
- Wiktoria Piekarska hefur skrifað undir samning við Fjölni. Wiktoria er örvhentur hornamaður sem hefur spilað fyrir Hauka og Fylki.
- Ungur og efnilegur handknattleiksmaður, Vilhjálmur Geir Geirsson, hefur fengi félagaskipti til Vals frá þýsku félagsliði en nafn þess er ekki gefið upp á félagaskiptasíðu HSÍ. Vilhjálmur Geir er sonur Geirs Sveinssonar fyrrverandi landsliðsfyrirliða og landsliðsþjálfara og núverandi bæjarstjóra í Hveragerði.
- Óðinn Þór Ríkharðsson var spakur við markaskorun í gær og lét nægja að skora fjórum sinnum, þar af tvisvar úr vítakasti, þegar lið hans Kadetten Schaffhausen vann BSV Bern, 29:24, í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Kadetten er efst í deildinni með sjö stig eftir fjóra leiki.
- Andrea Jacobsen var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir Silkeborg-Voel í tapi, 28:25, í heimsókn til Aarhus United í fjórðu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Silkeborg-Voel er um miðja deild 14 liða með fjögur stig eftir fjóra leiki.
- Norska úrvalsdeildarliðið Storhamar heldur áfram að vinna sína leiki í úrvalsdeild kvenna. Í gær lagði liðið Follo á heimavelli, 30:25. Axel Stefánsson er annar þjálfara Storhamar sem hefur átta stig eftir fjóra leiki eins og Evrópu- og Noregsmeistarar Vipers.
- Fredrikstad Bkl., sem Elías Már Halldórsson þjálfar, vann Romerike Ravens, 29:28, í norsku úrvalsdeildinni á útivelli í gær. Fredrikstad Bkl situr í áttunda sæti með fjögur stig að loknum fjórum leikjum.
- Auglýsing -