Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson verða á meðal 18 dómarapara sem dæma á Evrópumótinu í handknattleik sem fram fer í Þýskalandi frá 10. til 28. janúar 2024. Handknattleikssamband Evrópu birti í dag nöfn paranna sem dæma leiki mótsins.
Fimmta EM hjá Antoni Gylfa
Þetta verður þriðja Evrópumótið í röð í karlaflokki sem Anton og Jónas dæma saman en fjórða mótið sem Anton tekur þátt í. Hann dæmdi á EM karla 2012 með Hlyni Leifssyni. Auk þess dæmdu Anton og Hlynur saman á EM kvenna 2008. Anton Gylfi er fyrir löngu kominn í röð reyndustu handknattleiksdómara í Evrópu um þessar mundir.
Stærsta EM frá upphafi
Þar með er ljóst að íslenskir handknattleiksmenn, þjálfarar og dómarar munu láta til sín taka á þessu stærsta Evrópumóti í handknattleik karla sem haldið hefur verið frá upphafi. Upphafsleikir mótsins fara fram í MERKUR spiel Arena í Düsseldorf að viðstöddum 50 þúsund áhorfendum.
Nachevski er á listanum
Sérstaka athygli vekur þegar dómaralistinn er skoðaður að á honum er nafn Gjorgji Nachevski, sonar hins brottrekna fyrrverandi formanns dómaranefndar EHF, Dragan Nachevski.
Gjorgji Nachevski og félagi hans til margra ára, Slave Nikolov, hafa legið undir grun að hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Þeir hafa verið til rannsóknar hjá Sportradar sem sérhæfir sig í rannsóknum á veðmálasvindli. Þeir félagar voru nefndir til sögunnar í þáttum TV2 í vor, Mistænkeligt spil.
Annað sem vekur athygli er að Króatarnir Matija Gubica og Boris Milosevic, sem hafa verið orðaðir í tengslum við veðmálabrask, verða ekki á meðal dómara á EM. Þeir hafa tekið þátt í mörgum síðustu mótum.
Dómarapörin sem dæma á EM karla:
Anton Gylfi Pálsson / Jónas Elíasson (Íslandi).
Amar Konjicanin / Dino Konjicanin (Bosníu).
Vaclav Horacek / Jiri Novotny (Tékklandi).
Mads Hansen / Jesper Madsen (Danmörku).
Andreu Marín Lorente / Ignacio Garcia Serradilla (Spáni).
Charlotte Bonaventura / Julie Bonaventura (Frakklandi).
Karim Gasmi / Raouf Gasmi (Frakklandi).
Maike Merz / Tanja Kuttler (Þýskalandi).
Robert Schulze / Tobias Tönnies (Þýskalandi).
Vaidas Mazeika / Mindaugas Gatelis (Litáen).
Igor Covalciuc / Alexei Covalciuc (Norður Makedóníu).
Slave Nikolov / Gjorgji Nachevski (Norður Makedóníu)
Ivan Pavicevic / Milos Raznatovic (Svartfjallalandi).
Lars Jørum / Havard Kleven (Noregi).
Daniel Accoto Martins / Roberto Accoto Martins (Portúgal).
Bojan Lah / David Sok (Slóvenía).
Arthur Brunner / Morad Salah (Sviss).
Mirza Kurtagic / Mattias Wetterwik (Svíþjóð).