Ekkert verður úr því að örvhenta skyttan, Vuk Perovic, gangi til liðs við Þór Akureyri og leiki með liðinu í Olísdeild karla á leiktíðinni sem hefst síðar í vikunni.
Vísir greinir frá þessu í morgun og hefur eftir Magnúsi Eggertssyni, formanni handknattleiksdeildar Þórsara að reglur HSÍ heimili ekki að lið hafi fleiri en tvo leikmenn innan sinna raða sem séu frá löndum utan EES. Sú staðreynd mun ekki hafa komið upp úr dúrnum fyrr en nýlega í herbúðum Þórsara.
„Reglur HSÍ segja að það megi bara vera tveir leikmenn utan EES að spila í hverju liði. HSÍ lét okkur vita fyrir stuttu síðan. Það voru ekki betri upplýsingar sem við fengum þaðan,“ sagði Magnús Eggertsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, í samtali við Vísi.
Þegar hafa Þórsarar tvo leikmenn utan EES, Úkraínumanninn Ihor Kopyshynskyi og Serbann Jovan Kukobat.
Magnús segir ennfremur í samtali við Vísi að leit sé hafin að manni til að fylla það skarð sem Perovic átti að hlaupa í. Nú einbeiti Þórsarar sé að leikmönnum innan EES.
Handbolti.is var í sambandi við annan þjálfara Þórs, Þorvald Sigurðsson, fyrir síðustu helgi. Þá sagði hann að beðið væri eftir atvinnuleyfi fyrir Perovic hjá Vinnumálastofnun.
Þórsarar sækja Aftureldingu heim í fyrstu umferð Olísdeildarinnar á fimmtudaginn. Flautað verður til leiks í Mosfellsbær klukkan 19.30.