„Þetta er einfaldlega ævintýri sem gat ekki annað en hoppað á. Að fá að upplifa gjörólíka menningu, aðra siði og breyta um leið áhugamáli yfir í atvinnu,“ sagði Ólafur Brim Stefánsson tilvonandi handknattleiksmaður Al Yarmouk í samtali við handbolta.is.
Eins og kom fram í gærkvöld hefur Ólafur Brim samið við handknattleiksliðið Al Yarmouk í Kúveit og verður fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn sem vitað er um að til að leika fyrir handknattleikslið í landinu.
Hafði sýnt áhuga
Ólafur segir tilboðið hafa verið óvænt en þó spennandi. Það hafi komið til fyrir milligöngu umboðsmanns á hans vegum.
„Ég var búinn að segja umboðsmanninum að ég hefði áhuga á þessu slóðum eins og öðru. Ég reiknaði hins vegar ekki með að fá tilboð á þessum tíma enda með áætlanir uppi um að ljúka árinu sem ég á eftir í HR og leggja mín lóð á vogarskálarnar hjá Gróttu,“ segir Ólafur sem vendir sannarlega kvæði sínu í kross.
„Þegar þetta kom óvænt upp þá var ekki hægt annað en að segja já. Annað væri tóm vitleysa enda bjóðast tækifæri eins og þetta ekki á hverjum degi.“
Al Yarmouk var sett á laggirnar 1972 og er með bækistöðvar í Kúveitborg sem er höfuðborg landsins. Á veraldarvefnum segir að félagið sé eitt sigursælasta í liðið í Kúveit. Það sé byggt upp á blöndu af heimamönnum og erlendum leikmönnum. Meðal grunngilda liðsins sér öflugur varnarleikur. Þar með má telja víst að Ólafur Brim eigi að smella inn í liðið því hann er þekktur fyrir að gefa ekkert eftir. Heimvöllur félagsins, Al Yarmouk Sports Club, rúmar 2.000 áhorfendur í sæti.
Þekkti ekkert til
„Ég vissi lítið um Kúveit þegar ég heyrði fyrst af áhuga félagsins. Mér skilst að það sé eitthvað um Íslendinga í landinu en enginn þeirra leikur handbolta,“ sagði Ólafur léttur í bragði. Hann heldur til Kúveit eftir helgina en samningurinn við Al Yarmouk öðlast gildi í næsta mánuði og er til loka maí þegar deildakeppninni lýkur.
Möguleiki á framlengingu
Keppnistímabilið í Kúveit hefst í febrúar og lýkur í maí. Eftir það tekur við úrslitakeppni. „Ég hef möguleika á að framlengja samninginn út júní að því tilskyldu að mér líki dvölin og að liðinu takist að krækja í sæti í úrslitakeppninni. Svo skilst mér að það fari fram bikarkeppni í nóvember. Annars er bara um ræða æfingar og æfingaleiki á næstu vikum,“ sagði Ólafur Brim sem veit að evrópskir leikmenn eru á mála hjá Al Yarmouk en rennir að mestu leyti í blinnt í sjóinn.
Kúveit er við norðvesturströnd Persaflóa með landamæri að Írak og Sádí Arabíu. Um 90% útflutningstekna koma af olíu. Íbúafjöldi landsins var talinn vera um 4 milljónir árið 2014 en innan við helmingur íbúa eru kúveiskir ríkisborgarar. Orðsifjafræði; Al-Kuwayt merkir á forn-arabísku - litla virkið við ströndina. (afritað af Wikipediu)
Maður verður að prófa
„Kannski verður þetta skemmtilegt, kannski ekki. Maður verður að prófa eitthvað nýtt þegar það býðst. Svona tækifæri bjóðast ekki á hverjum degi,“ sagði Ólafur Brim Stefánsson handknattleiksmaður. Hann fer til Kúveit í næstu viku.
Í tilkynningu frá Gróttu í dag segir að samkomulag hafi náðst á milli félaganna um vistaskiptin samhliða samning Al Yarmouk og Ólafs sem kom á ný til Gróttu í sumar eftir ársdvöl hjá Fram.