- Auglýsing -
- Berglind Þorsteinsdóttir sem gekk til liðs við Fram frá HK í sumar lék ekki með liðinu gegn Aftureldingu að Varmá í upphafsleik 5. umferð Olísdeildar kvenna í gærkvöld. Einnig var Erna Guðlaug Gunnarsdóttir fjarverandi í liði Fram.
- Bjarki Már Elísson lék sennilega sinn fyrsta leik með Telekom Veszprém á leiktíðinni í gær þegar liðið vann FTC, 45:34, á heimavelli í ungversku úrvalsdeildinni í handknattleik. Hann skoraði eitt mark. Bjarki Már gekkst undir aðgerð á hné í sumar og hefur síðan verið í góðri endurhæfingu. Telekom Veszprém er efst í deildinni ásamt Pick Szeged. Hvort lið hefur 10 stig eftir fimm umferðir.
- Óðinn Þór Ríkharðsson hafði hægt um sig og skoraði fimm mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, þegar Kadetten Schaffhausen vann CS Chênois Genève Handball, 39:23, á heimavelli í áttundu umferð svissnesku A-deildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Kadetten Schaffhausen er sem fyrr efst í deildinni, hefur nú 15 stig að loknum átta leikjum.
- Noregs- og Evrópumeistarar í handknattleik kvenna, Vipers, unnu Storhamar, 28:26, á heimavelli í uppgjöri tveggja efstu liða norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær. Axel Stefánsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, er annar þjálfara Storhamar sem er í öðru sæti deildarinnar með 10 stig eftir sex umferðir.
- Slóveninn Dean Bombac kveður herbúðir ungverska handknattleiksliðsins Pick Szeged á næsta sumri eftir átta ára dvöl, þar af sex ár í röð. Bombac kom til Szeged 2014 en fór til Kielce í Póllandi 2016 og var í tvö ár áður en sneri til baka í Szeged.
Staðan á einni síðu
Hægt að kynna sér stöðuna í mörgum deildum evrópska handknattleiksins á sérstakri stöðusíðu sem sett hefur verið upp undir flipanum staða og leikir og m.a. má nálgast hér.
- Auglýsing -