Strákarnir í hlaðvarpsþættinum Handboltinn okkar skelltu sér í upptökuverið sitt í dag og tóku upp sérstakan aukaþátt. Tilefnið að þessum aukaþætti var að þeim félögum barst það til eyrna að Vængir Júpiters (VJ) sem eru í Grill 66-deild karla, séu ekki með gilda kennitölu. Þar af leiðandi er keppnisleyfi liðsins ekki gilt en forsendur fyrir keppnisleyfi er að hafa gilda kennitölu.
Þeir félagar fóru á stúfana og fengu Róbert Geir Gíslason framkvæmdarstjóra HSÍ í viðtal vegna málsins. Hjá Róberti kom fram að málið væri komið inná borð HSÍ og ÍSÍ þar sem það yrði skoðað ofan í kjölinn. Róbert taldi líkur á að einhver niðurstaða lægi fyrir á morgunn, föstudag.
Þá heyrðu þeir í Braga Rúnari Axelssyni, forsvarsmanni Harðar á Ísafirði, en Harðarmenn sendu í dag kæru vegna þessa mál til dómstóls HSÍ. Bragi sagði að þeir fyrir vestan hefðu farið í að afla upplýsinga um félagið Vængi Júpiters vegna yfirvofandi kæru í leik félaganna á dögunum. Við þá eftigrennslan kom í ljós að kennitalan sem gefin var upp til skrifstofu HSÍ hafi verið afskráð 12. mars 2020. Forsvarsmenn Vængja Júpiters þáðu ekki boð um viðtal þar sem þeir vildu skoða málið áður en þeir tjáðu sig um það.
Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á örina í hægra horninu hér fyrir neðan.